148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:46]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er kannski rosalega vitlaus maður en mér heyrist þetta alltaf vera sama línan óháð hagsveiflunni. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að haga skattamálum og útgjöldum ríkisins eftir því hvernig við teljum efnahaginn vera að þróast og augljóslega út frá stöðu ríkissjóðs en ekki út frá trúarkreddum í kringum það hvort skattar eigi að vera háir eða lágir eða hvort útgjöld ríkisins eigi að vera svona eða hinsegin. Ég lít á þetta frá öðru sjónarhorni.

Við Píratar tókum í kosningabaráttunni það fjárlagafrumvarp sem hafði verið lagt fram í október og breyttum því á þann hátt að það samræmdist hugmyndum okkar um hver væru æskileg næstu skref. Ég ítreka enn og aftur að það voru tillögur en ekki loforð, enda eru kosningaloforð að mínu mati í grundvallaratriðum heldur óábyrgt fyrirbæri.

Ég heyri hins vegar ekki í svari hv. þingmanns ræðuna sem ég myndi halda að kæmi fram út frá þeirri hugmyndafræði sem ég heyrði í ræðunni hans. Aftur er ég kannski bara svona vitlaus. En mér finnst vanta þessa línu: Þegar það er uppsveifla ættum við að hækka skatta. Það vantar þá línu inn í allt mengið. Mér finnst sagan alltaf vera sú að við eigum að lækka skatta, alltaf sú að við eigum að hafa hemil á ríkisútgjöldum. Mér finnst kenningin sem ég heyri frá Sjálfstæðismönnum almennt ekki vera alveg í línu við hugmyndina um að við eigum að haga þessum málum í samhengi við hagkerfið í heild sinni og allt það.

Ég hef ákveðinn skilning á þessu, mikinn reyndar. Því síðan kemur kosningabarátta og það sem gerist er að okkur er stillt upp fyrir framan hóp af fólki og það er spurt: Viltu lækka tryggingagjaldið? Allir segja: Já, ég vil lækka tryggingagjaldið. Viltu hækka vask á ferðaþjónustu? Allir segja: Nei, ég vil ekki hækka vask á ferðaþjónustu. Svo komum við inn í þennan sal og förum yfir fjárlög og það er oft mikið ósamræmi milli þess sem kemur þar fram og þess sem sagt var í kosningabaráttu. Kannski að verulegu leyti eðlilega, því að við getum ekki hagstýrt eftir einhverjum trúarkreddum eða einfaldlega eftir því hvað við viljum. En mér þykir vænt um allt það ljós sem hv. þingmaður getur varpað á þetta málefni vegna þess að þótt ég sé ekki í Sjálfstæðisflokknum (Forseti hringir.) vil ég skilja hver hugmyndafræðin er á bak við ákvarðanir sem sá ágæti flokkur tekur og reyndar allir flokkar.