148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:40]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir. Það er vissulega rétt að það kemur þeim ekki til góða þegar eitthvað gerist síðar, þ.e. þeim sem við á hverju sinni. Ég myndi gjarnan vilja gera betur, en staðan er eins og hv. þingmaður benti hér á í fyrra andsvari sínu: Um leið og við segjum að við séum að fara niður í rúmlega 1,2% í afgangi harmónerar það ekki við aukna útgjaldaaukningu. (ÞorstV: Það er hægt að spara á móti.) Það er vissulega hægt að spara á móti en þar greinir okkur á um aðgerðir og aðferðir. Ég held að bótakerfin hafi ekki endilega þjónað þeim sem við vildum að þau hefðu þjónað á þann hátt sem við vildum, þ.e. þeim sem lakast standa og unga fólkinu okkar sem við viljum helst hjálpa.

Varðandi kolefnisgjaldið sagði ég strax við umræðuna um kolefnisgjald að ég myndi vilja sjá sviðsmyndir um hvernig það lenti á mismunandi landsvæðum. Ég var með allan þann fyrirvara á því. (Forseti hringir.) Hann hefur ekkert breyst. Alla vega er hægt að segja að það er klárt mál að skoðun mín hefur ekki breyst þótt ég hafi farið hinum megin við borðið.