148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[20:05]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi Landeyjahöfn þá man ég nú svo langt aftur að mig minnir að talan hafi verið 97% sem var lofað fyrir 2010, að siglingatíðni í Landeyjahöfn yrði fyrir íbúa Vestmannaeyja með núverandi Herjólfi níutíu og eitthvað prósent, 97% var það fyrst, svo fór það eitthvað lækkandi. Raunin varð sú að það varð auðvitað miklu minna, tugum prósenta minna eins og allir vita. Auðvitað er eðlilegt að íbúar í Vestmannaeyjum treysti kannski ekki öllum svona fyrirætlunum og við vitum báðir að það er mjög mikil óvissa varðandi þessar samgöngur. Það er það sem er ólíðandi. Þessi óvissa getur ekki gengið svona lengur. Þetta kemur niður á öllum atvinnufyrirtækjum í Vestmannaeyjum, íbúum, ferðamönnum og öllu. Tíðnin þarf líka að vera meiri, þar þarf að gefa í. Það þarf að vera meiri tíðni á sumrin og ég myndi segja að helst þyrfti tvö skip sem sigldu stanslaust á milli yfir háannatímann, yfir daginn á sumartímanum, þannig að það sé sagt.

Ráðherra minntist á lögregluna. Ég náði ekki að klára það sem ég ætlaði að segja áðan varðandi fjölda lögreglumanna, en bara til að benda hæstv. ráðherra á það þá voru lögreglumenn 712 árið 2007. Þeim var fækkað í 624 árið 2012, þá var talið að þeim þyrfti að fjölga um rúmlega 200. Síðan hefur íbúum náttúrlega fjölgað og ferðamönnum og innflytjendum. Hvað eru margir lögreglumenn núna? Síðustu tölur frá þessu ári held ég hafi verið 660. Það vantar því enn þá 200 upp á það sem var talið að þyrfti árið 2012. Þannig að það þarf að gefa í.

Ég þakka auðvitað fyrir að verið sé að veita fé í þennan málaflokk, að sjálfsögðu, ég þakka fyrir það og hef lýst (Forseti hringir.) því yfir við dómsmálaráðherra, en það þarf að gefa enn betur í og sérstaklega til almennrar löggæslu.