148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[20:45]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem við þurfum að gera samhliða en þó í einhverri röð er í fyrsta lagi að koma okkur saman um heilbrigðisstefnu fyrir Ísland. Í öðru lagi þurfum við að kortleggja þá þjónustu sem þegar er fyrir hendi. Sums staðar er um tvíverknað að ræða í kerfinu og sums staðar eru eyður í því. Ég vil til að mynda nefna sumar hliðar á forvörnum og endurhæfingu þar sem við þyrftum að gera betur og leggja meira af mörkum.

Síðan þurfum við að láta ríkisfjármálaáætlunina haldast í hendur við þau skref sem við viljum stíga í áttina að betra heilbrigðiskerfi. Það útheimtir allt saman vinnu, tíma og yfirlegu, og líka þverpólitíska vinnu því að öll þessi sjónarmið þurfa að koma að borðinu, að því gefnu að við séum sammála um að sóknin sem við þurfum að fara í sé fyrst og fremst í þágu hins opinbera heilbrigðiskerfis. Það er grundvallaratriði, útgangspunktur.

En varðandi tiltekna spurningu hv. þingmanns um Heilbrigðisstofnun Suðurlands vil ég segja að á þessu tímapunkti þegar ég hef verið þrjár vikur í starfi hef ég náð að hitta forystufólk Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á einum stuttum fundi og átt eitt símtal við stjórnendur þar. Ég hef ekki einu sinni náð að hitta alla forstöðumenn enn þá þannig að ég vil ekki í þessu andsvari ræða um stöðu einstakra stofnana vegna þess að ég þarf að ná heildaryfirsýn yfir það hver staðan er. Það sem liggur fyrir okkur á alveg næstu vikum er að skipta upp þeim potti sem við gerum tillögu um að sé til þess að bæta stöðu þessara heilbrigðisstofnana og gera það með sanngjörnum hætti og með hliðsjón af mismunandi stöðu stofnananna sem er sannarlega rökstudd og í raun mjög ólík.