148. löggjafarþing — 9. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[23:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við fáum að heyra það við þessa tillögu að hún kosti ýmist 2,4 milljarða, 1 milljarð eða muni hreinlega skila ríkinu tekjum. Það sem blasir hins vegar við, hvað sem líður öllum þessum rökum, er að hér er komið til móts við þá sem hafa það einna skást almennt, þ.e. fólk sem er komið á lífeyrisaldur en getur unnið. Og þá spyr ég: Hvað með fólkið sem getur ekki unnið? Hvað með þá staðreynd að samkvæmt þessari tillögu myndum við fara að greiða úr almannatryggingum bætur til þeirra sem hafa segjum 300.000–400.000 á mánuði og við sættum okkur við að kosta til þess milljörðum samkvæmt tillögunni sjálfri en gerum ekkert fyrir þá sem geta ekki unnið og sitja eftir með sárt ennið með mun lægri framfærslu? Þetta er einfaldlega ósanngjarnt. Að tefla því fram sem rökum hér að þeir sem hvort eð er hafi há laun muni að öllum líkindum hafa safnað sér upp lífeyrisréttindum sem muni þá skerða bótaréttinn á móti er ekkert annað en að segja þetta hér: Tillagan er óþörf. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í.)

Ég segi nei.