148. löggjafarþing — 10. fundur,  28. des. 2017.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Þá að hinum höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar. Gjaldeyristekjur stefna á árinu í 535 milljarða og tekjur hins opinbera eru u.þ.b. 10% af því, þ.e. 54 milljarðar. Uppspretturnar eru virðisaukaskattur, gistináttagjöld, bílastæðagjöld þjóðgarða, vörugjöld bílaleiga o.fl. Þótt nú hafi hægt á vextinum spái ég því að innan tiltölulega fárra ára sjáum við þrjár milljónir ferðamanna og þar yfir. Þá tel ég Íslendingana með. Þetta kallar á ærin innviðaverkefni. Þar vil ég nefna vegi, ferjur, heilbrigðisþjónustuna, flugvellina og innviði þjóðgarða, landvörslu, löggæslu o.fl. Hvernig eigum við að komast yfir það án þess að hafa hér fleiri gjöld, t.d. komu- og brottfarargjöld sem oft má helst ekki nefna í umræðunni, og jafnvel aðrar gjaldbreytingar, samanber stjórnarsáttmálann?

Það beinir svo augunum að þolmörkum íslenskrar náttúru og íslensks samfélags og stýringu í ferðaþjónustunni. Þá ætla ég að leyfa mér að minna á skýrslu sem ég fékk samþykkta hér sem verið er að vinna í ráðuneyti ferðamála og á að vera tilbúin í febrúar. Ég tel að hún verði grunnur að heildstæðri tekjuöflunarstefnu ríkis og sveitarfélaga í þessum málaflokki sem er mjög brýnt verkefni.

Það er verk að vinna á fyrstu mánuðum hins nýja árs. Það þarf auðvitað að vinna slíka áætlun í samræmi við nýja ríkisfjármálaáætlun sitjandi ríkisstjórnar og ég er alveg viss um að það horfir til bjartari tíma í þessum efnum.