148. löggjafarþing — 11. fundur,  28. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[16:32]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér láðist að geta þess að flutningsmenn ásamt mér á tillögunni á þskj. 107 eru hv. þingmenn Inga Sæland, Guðmundur Ingi Kristinsson, Karl Gauti Hjaltason, Helgi Hrafn Gunnarsson og Oddný G. Harðardóttir.

Varðandi hitt málið er hér spurning frá hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni og vil ég nota tækifærið og skýra það aðeins. Það er sem sagt þetta ákvæði sem sýnist hafa verið eins konar mistök í lagasetningu, það snýr að því að vextir sem myndu vera ákvarðaðir á inneign skuldara vegna ofgreiðslu af gengistryggðu láni sem hann hefur þá fengið til baka, því þá myndast vextir af því, að þeir myndu ekki teljast til skattskyldra fjármagnstekna.

Varðandi hina spurninguna sem hv. þingmaður bar fram er það út af fyrir sig kannski ekki skýrt tekið fram í breytingartillögunni en minn skilningur væri sá að með samþykkt þessarar tillögu myndu menn eignast slíka kröfu á því að leiðrétting færi samkvæmt ákvæðum laga um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.