148. löggjafarþing — 11. fundur,  28. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[16:38]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er einn af flutningsmönnum breytingartillögu á þskj. 107. Ég vil benda á það í þessu samhengi að almannatryggingalöggjöfin er mjög gölluð og eitt af því ljótara í þessari gölluðu löggjöf er einmitt þetta mál. Hvernig í ósköpunum getur okkur dottið í hug að rétta einhverjum styrk til lyfja, bílastyrk, bensínstyrk eða einhverja styrki, með annarri hendi og rifið hann í burtu með hinni?

Það sem er líka það ljótasta í þessu er hvernig er farið að þessu. Þetta er borgað út strax um hver mánaðamót, en rifið til baka á skerðingardeginum mikla 1. júlí ár hvert. Fólk sér ekki hvað er verið að skerða þar, það fær bara einn pakka um þetta: Nú ert þú skertur um þessa upphæð. Við erum að tala um fólk sem er með 196 þús. kr. á mánuði. Ég þekki það af eigin raun að það er undarlegt að fá þau skilaboð 1. júlí: Nú á að taka af þér 10, 20, 30 þús. kr. á mánuði út árið. Það er ekki nóg með að maður þurfi kannski á lyfjum að halda sem eru nauðsynleg til að halda í manni lífi, nei, þú átt að fara að herða sultarólina vegna þess að þessi styrkur skerti hjá þér. Svo erum við með barnafólk. Það er ekki nóg með að þessi styrkur sé skattaður, heldur skerðir hann líka barnabætur og húsnæðisbætur.

Ég spyr bara: Hvernig í ósköpunum dettur Alþingi í hug að búa til svona lög og láta þetta viðgangast? Við erum að tala um smáaura í því samhengi sem þetta kostar ríkissjóð, en stóran pening fyrir þá sem þurfa á þessu að halda.