148. löggjafarþing — 11. fundur,  28. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[16:44]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er í þessu eins og svo mörgu öðru að það er nauðsynlegt að halda hugsuninni skýrri og hreinni. Það sem ég vil leyfa mér að taka undir með hv. þingmanni er að gera algjörlega skýrt þennan greinarmun eins og ég rakti í framsöguræðu minni. Örorkulífeyrir og tekjutrygging eru auðvitað ígildi launa í því tilliti að þeim greiðslum er ætlað að bæta launamissi vegna skertrar starfsorku og skertrar vinnugetu. Á hinn bóginn eru þær greiðslur sem einstaklingurinn fær á grundvelli laga um félagslega aðstoð, þær uppbætur sem við höfum verið að tala hérna um, annars vegar vegna liða eins og húsnæðis, heyrnartækja, rafmagnsnotkunar vegna súrefnissíu o.s.frv. og hins vegar vegna reksturs á bifreið, einkanlega fyrir hreyfihamlað fólk, náttúrlega ekki ígildi launa. Þetta er stuðningur samfélagsins við þá sem eru sannarlega þurfa á honum að halda og hafa verið metnir svo af aðilum sem eru til þess bærir að þeir þurfi á honum að halda. Það stenst náttúrlega ekki neina skoðun að líta á þetta sem tekjur.

Það dæmi sem hv. þingmaður tók varðandi íþróttastyrki undirstrikar þetta með afar skýrum hætti þannig að hverjum manni má vera ljóst.