148. löggjafarþing — 11. fundur,  28. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[18:00]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður bendir á að það er ákveðinn grundvallarmunur á því að vera yfir höfuð reiðubúinn til að fara í ríkisstjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum eða ekki. Minn flokkur, Píratar, gaf það út fyrir kosningar að við færum ekki í ríkisstjórnarsamstarf með honum. Mér fannst leiðinlegt hvernig alltaf var spurt: Viljið þið ekki vinna með Sjálfstæðismönnum? Ég sagði: Auðvitað viljum við vinna með þeim, höfum unnið með þeim margsinnis og munum gera það aftur. En ekki í ríkisstjórnarsamstarfi. Það er sérstakt verkefni sem flokkar þurfa að vera í meginatriðum sammála um hvernig eigi að haga. Það er vissulega ekki tilfellið þegar kemur að Sjálfstæðisflokki og Pírötum.

Ég hef aldrei verið mikið fyrir þessa orðræðu um að fólk eigi að vita fyrir fram hvaða flokkar ætli að vera saman í ríkisstjórn. En ég er að sannfærast meira og meira um það sem hv. þingmaður var að segja og margir úr mínum flokki eru þeirrar skoðunar að þetta eigi að liggja fyrir fyrir fram. Ég leita í lausnir annars staðar eins og hvernig samskipti framkvæmdarvalds og löggjafarvalds eigi að vera. En ég held að þetta liggi alveg fyrir.

Ég verð þá að spyrja fyrst hv. þingmaður nefndi það: Ef mig misminnir ekki voru ekki báðir flokkar í kosningabaráttunni, Samfylkingin og Vinstrihreyfingin – grænt framboð, á því að útiloka ekkert fyrir fram? Blessunarlega útilokaði Samfylkingin það eftir á, að ég held af fullkomlega málefnalegum ástæðum. Þessir flokkar eru einfaldlega ekki nógu sammála til að vera saman í ríkisstjórn. Ég held að Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn séu ekki heldur nógu sammála til að vera í ríkisstjórn. Þess vegna held ég að birtingarmynd þess séu öll þessi vandamál.

Ég hef svo sem ekki mikið annað að spyrja um en bara hvort hv. þingmaður muni þá ekki beita sér fyrir því í næstu kosningum að vinna auðvitað með Pírötum en kannski ekki endilega með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn.