148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

atkvæðagreiðsla um fjárlög.

[10:39]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég met allar atkvæðagreiðslur á Alþingi út frá þessu, eins og ég vona að hv. þingmaður og fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, geri og hafi ávallt gert þegar hann gegndi því embætti. Ég held að hv. þingmenn sem styðja þessa ríkisstjórn geti verið mjög stoltir af því að styðja hér fjárlög þar sem verið er að auka verulega útgjöld til þeirra grundvallarstoða sem voru mest umtalaðar fyrir síðustu kosningar. Ég vil þá sérstaklega nefna heilbrigðismálin þar sem framlög hins opinbera fara upp í 8,5% af vergri landsframleiðslu, sem er í takt við þau markmið sem við hv. þingmenn höfum öll sagt að við styðjum. Ég vil líka sérstaklega nefna framlög til menntakerfisins, þannig að ég er ekki í nokkrum vafa um að þeir hv. þingmenn sem hér eiga eftir að greiða atkvæði um fjárlög geti stutt þessar tillögur stoltir og sjái hvernig við erum að byggja hér upp samfélagslega innviði.