um fundarstjórn.
Virðulegi forseti. Ég vil koma með sambærilega athugasemd og hv. 5. þm. Norðausturkjördæmis, Logi Einarsson. Hæstv. ráðherra lauk seinna svari sínu til mín á þann veg að hún gerði ráð fyrir því að ég myndi þá vilja ganga á afganginn til þess að fjármagna þær tillögur sem við vorum að tala um áðan í sambandi við barnabætur. Það er einn möguleiki. En það eru líka fleiri möguleikar sem komið hafa fram, eins og hv. þm. Logi Einarsson fór yfir. Ekki hefur skort á hugmyndir hjá Pírötum til þess að auka tekjur ríkissjóðs, þvert á móti höfum við verið gagnrýnd fyrir að koma fram með slíkar tillögur óháð því hvaða aðrar tillögur hafa þar komið fram.
Ég vildi nefna að þó að við viljum fara í þessa breytingu á barnabótum þannig að þær skerðist ekki langt undir lágmarkstekjum þýðir það ekki endilega að við viljum ganga á afganginn. Aðrar leiðir hafa verið nefndar til þess að auka tekjur ríkissjóðs á móti. Þetta eru ekki þannig upphæðir að það ætti að vera erfitt, sérstaklega ekki fyrir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð.