148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:45]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í óundirbúnum fyrirspurnum áðan nefndi hæstv. forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, að ekki hefðu komið fram fullmótaðar tillögur um hvernig ætti að fjármagna þau útgjöld sem Samfylkingin hefur lagt til. Ég hef skoðað þetta aðeins. Í nefndarálitinu eru alls konar hugmyndir en þær virðast ekki vera fullmótaðar tillögur. Mér skildist að það væri rétt, ég talaði við þingmann Samfylkingarinnar þar, en þá er það þetta: Er nóg að vera með fullmótaðar tillögur, bæði um hvernig á að fjármagna og vera með útgjöldin? Ef það er það sem forsætisráðherra er að segja, þá er það gott, ef það er nóg til að breytingartillögur minni hlutans verði samþykktar. Ef það er ekki nóg væri gott að eiga orðastað við forsætisráðherra um hvernig það ferli myndi líta út. Hvernig myndi það ferli líta út með aðkomu minni hlutans að tekjuöflunartillögunum og útgjaldatillögunum? Hvernig lítur það út? Meðan við vitum það ekki eru menn (Forseti hringir.) hérna kastandi fram mismunandi hugmyndum og saka hver annan um — (Forseti hringir.) hvernig myndi raunverulegt samstarf líta út? Það væri gott að heyra það hjá forsætisráðherra.