148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[12:47]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því að atvinnurekendum hljóti að þykja svar hæstv. fjármálaráðherra afar áhugavert, að vegna þess að samkomulag sem hann gerði og var í öllum fjölmiðlum á sínum tíma var ekki skriflegt, þurfi hann ekki að standa (Gripið fram í.) við það og ríkisstjórnin ekki heldur. Hér er lagt til (Gripið fram í.) að staðið verði við samkomulag sem gert var til að liðka fyrir kjarasamningum á sínum tíma og með því komið til móts við fyrirtæki, ekki hvað síst lítil fyrirtæki, með því að lækka þennan skatt á atvinnu, skatt sem bitnar mest á litlu fyrirtækjunum, nýsköpunarfyrirtækjunum, fyrirtækjum sem eru að búa til ný verðmæti, skatt sem hækkaður var vegna sérstakra aðstæðna sem nú eru gjörbreyttar. Það er ekkert lengur sem réttlætir þennan sérstaka skatt á atvinnusköpun, hvað þá skatt sem dregur úr nýsköpun, dregur úr því að lítil fyrirtæki geti vaxið og dafnað.