148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[13:54]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, þetta er nýtt, en ég er á þeirri skoðun að það sé ekki einu sinni reynt. Það er ekki einu sinni reynt að fara í gegnum liðina og segja: Þessi liður hérna á augljóslega ekki heima í fjáraukanum, hendum honum a.m.k. út, ef ekki fleirum. Það er ekki einu sinni einn liður og þó eru nokkrir augljósari en aðrir.

Varðandi ferlið höfum náð að fara í það í réttri röð. Við höfum náð að setja fjármálastefnu og fjármálaáætlun í kjölfarið á henni og síðan fjárlög. Það sem ég benti á í afgreiðslu fjármálaáætlunarinnar síðast er að það er brothætt í kringum ríkisstjórnarskipti og við veltum því lítið fyrir okkur hvaða hagræðingu við gætum gefið til næstu ríkisstjórnar. Auðvitað voru þetta óvæntar kosningar núna, þannig að það var þeim mun meiri brotalöm þar á.

Þetta bendir bara á gallana. Við fórum samt eftir ferlinu, þannig að við höfum tekið ferlið í réttum skrefum. Út af aðstæðum hafa gallar komið í ljós sem knýja á um að við gerum þetta og hitt fyrir ákveðnar dagsetningar og það er óhentugt ef kosningar færast fram og til baka. Það er eitthvað sem við getum gert betur, aðlagað lögin að því að þau séu dínamískari því að slíkar aðstæður gætu komið upp aftur. Það er ekki hægt að útiloka það, 10 ár, 20 ár, hver veit.

Hvað varðar eftirlitið er gríðarlega mikilvægt að vita hluti fyrir fram. Ef ég veit ekki fyrir fram hvað á að gera get ég ekki haft eftirlit með því. Ef ég rétti þér tóman tékka og segi þér að eyða peningunum þá get ég ekki spurt þig eftir á: Eyddir þú peningnum ekki örugglega rétt? Þannig getur eftirlit ekki virkað. Við verðum að vera virkari í því að fjárlögin segi okkur meira hvað þau ætli að gera í framtíðinni og sama með (Forseti hringir.) að sækja ekki heimildir eftir á heldur fyrir fram.