148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[15:59]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hefði svo sem ekkert á móti því að hv. allsherjar- og menntamálanefnd myndi skoða þetta mál. Mér þykir reyndar einsýnt að hún geri það. Hins vegar finnst mér líka eðlilegt að fjárlaganefnd fari í það. Ástæðan fyrir því er sú að þetta er málefni sem varðar fjárhagsleg samskipti við ríkiskirkjuna og sérstaklega vegna þess eins og ég nefndi hér áður, ég þekki ekki skoðanir hv. þingmanns á þeim efnum, en að mínu mati fæ ég ekki betur séð en að þetta kirkjujarðasamkomulag hafi verið gert til þess að passa það að í raun og veru væri miklu erfiðara að aðskilja ríki og kirkju. Fólk hafi fundið á sér á einhverjum tímapunkti að það hlyti að koma að því, enda eðlileg þróun í siðmenntuðu samfélagi að ríkið sé ekki með kirkju. Það er svo sem annað umræðuefni. En það fer inn á það umræðuefni vegna þess að það er leiðin til að halda henni þar sem hún er, jafnvel þótt við myndum afmá þetta fáránlega ákvæði í stjórnarskrá um ríkiskirkjuna og fara í aðrar tilheyrandi eðlilegar breytingar á því fyrirkomulagi, þá stendur þetta alltaf eftir, þetta kirkjujarðasamkomulag gerir það svo erfitt að búa til hinn raunverulega aðskilnað sem hlýtur að teljast eðlilegur í nútímasamfélagi þar sem ríkið á ekkert að vera að hygla tilteknum trúarbrögðum. Fyrirgefðu, ég verð alltaf pínu reiður þegar ég tala um þetta því að mér finnst þetta svo fráleitt.

Af þeirri ástæðu tel ég eðlilegt að fjárlaganefnd fari í þetta vegna þess að þetta varðar fjármuni sem fara frá ríkinu til ríkiskirkjunnar og sömuleiðis þessa sölu eða hvað má kalla það, einhvers konar eilífðarleigu á þessum kirkjujörðum, ég veit ekki einu sinni hvað maður á að kalla það. Þetta varðar allt fjármál. Fjármálin eru notuð. Og fjármálavinkill Alþingis er notaður til að halda kirkjunni bundinni við ríkið og ríkinu bundnu við kirkjuna. Mér finnst eðlilegt að fjárlaganefnd fari yfir þetta og komist til botns í því. Ég átta mig á því að samningar geti ekki verið ræddir í pontu þegar menn eru í miðjum samningaviðræðum, en þá finnst mér enn þá mikilvægara að eftirlitshlutverki Alþingis sé sinnt sökum þess hvernig fór með kirkjujarðasamkomulagið vegna þess að það verður að passa að áttin sem farin verður verði frá þeirri (Forseti hringir.) braut. Það þarf fyrr eða síðar að slíta þessu kirkjujarðasamkomulagi með einhverjum hætti. (Forseti hringir.) Ég óttast að þær samningaviðræður snúist í reynd um að festa þetta fráleita fyrirkomulag enn betur í sessi.