148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[16:38]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi hér slegið mjög áhugaverðan tón. Ég þorði bara ekki að slá þann tón hérna áðan. En mig grunar einmitt að menn vilji ekki setja ýmis útgjöld sem birtast í fjáraukalögum í fjárlögin því að þá yrði afgangur fjárlaga 2018 minni. Það er verið að fegra bókhaldið. Það er umræða sem við þurfum að taka. Ef við myndum hreinsa 10 milljarða af fjáraukalögum og setja í fjárlögin hvað myndi gerast? Jú, afgangurinn færi úr 32 milljörðum í 22. Það er kannski einhver pólitík sem meiri hluta finnst óþægilegt að horfast í augu við. Ef svo er þá er það auðvitað arfavitlaust og óheiðarlegt, ef menn ætla að nýta sér fjáraukalögin með þeim hætti að reyna að koma sem mestum útgjöldum yfir á fjáraukalögin svo fjárlögin 2018 líti aðeins skár út. Það er einmitt hluti af þeirri umræðu sem við þurfum að taka því að það er alvarlegt ef menn beita einhverjum bókhaldstrixum. Það held ég að allir þingmenn séu sammála um að gengur auðvitað alls ekki.