148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[17:12]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Nei, viðhorf mín hafa reyndar ekkert breyst. Ég fékk líka að njóta þess að sitja í fjárlaganefnd fyrir ári síðan áður en ég settist í ráðherrastól. Mér er mjög annt um að unnið sé eftir lögunum og að það sé mjög stífur rammi utan um framkvæmdina. Ég tel og taldi það í ráðherrastól sjálfur að augljóslega væri mjög rík skylda til að vinna innan gildandi fjárheimilda. Auðvitað eru liðir eins og hafa verið nefndir hérna. Til dæmis varðandi mun meiri tíðni örorku en ráð var fyrir gert, sem er mjög erfitt að bregðast við með öðrum hætti en að sækja fjárheimildir ef ekki finnast önnur úrræði. En eins og kom ágætlega fram í máli Ríkisendurskoðunar hlýtur það alltaf að vera ákvörðun ríkisstjórnar hverju sinni að þegar slíkir veikleikar koma í ljós sé byrjað að ráðstafa úr varasjóði. Ef menn lenda svo í þeirri stöðu að hann tæmist komi til álita að opna fjárauka.