148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[18:05]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir áhugaverða ræðu, þótt örlítið sundurlaus væri eins og hann minntist á. Hann snertir á mörgu athyglisverðu. Ég vil byrja á að eiga orðastað við hann um ferlið sjálft, þ.e. um lögin um opinber fjármál sem við höfum öll gert hér að umtalsefni. Ég átti orðastað við hæstv. forsætisráðherra fyrr við þessa umræðu um það, að við erum með þessi lög og þau eru í gildi. Þau eru auðvitað hugsuð með tilteknum hætti en menn standa einfaldlega frammi fyrir því að verða að fylgja lögum. Við höfum samt einhvern veginn ákveðið að gera það ekki af því að þau henta ekki, af því að aðstæður eru ekki eins og lögin gerðu ráð fyrir. Ég held að það væri umhugsunarefni ef fleiri veldu þann kost að segja: Lögin henta ekki, það var ekki gert ráð fyrir að ég lenti í þessum aðstæðum, þess vegna ætla ég ekki að fara eftir lögunum. Um þetta hefur mikið verið fjallað en við skulum reyna að bæta úr frekar en hitt.

En það sem mig langaði til að velta fyrir mér er í sambandi við aðhaldið á framkvæmdarvaldinu, varasjóðina sem líka hafa verið talsvert til umræðu og fjáraukalögin. Það var rætt hér um tékkhefti, hvort ætti að taka það af og þá er spurningin þessi: Eigum við að stefna að því að það sé óheimilt að greiða nokkuð út úr ríkissjóði nema fyrir liggi heimild? Eigum við þá að taka upp það fyrirkomulag að nýta auðvitað varasjóðina en við séum með fjáraukalög eða ígildi þeirra hreinlega oftar, við værum t.d. með fjáraukalög í apríl, í október og desember? Þá komast menn hjá því að útdeila peningum nema með fyrirframsamþykki Alþingis.