148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:41]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér fjárlög fyrir árið 2018. Nú erum við Vinstri græn aðilar að ríkisstjórn sem leggur fram frumvarp til fjárlaga og eðlilega hafa byggst upp miklar væntingar hjá mörgum um að með aðkomu Vinstri grænna að ríkisstjórnarborðinu breytist margt til betri vegar. Ég skil það vel vegna þess að stefna okkar Vinstri grænna er góð. Hún byggir á jöfnuði og réttlæti og að arðurinn sem rennur til samfélagsins í gegnum ýmsa farvegi skili sér aftur út í samfélagið í öflugum innviðum og til góðs velferðarkerfis og öflugs heilbrigðiskerfis, menntakerfis og að Ísland verði í fremstu röð þar sem gott velferðarsamfélag sé haft í fyrirrúmi.

Ég tel að það sem hefur náðst núna í gegn í samstarfi vissulega ólíkra flokka sýni fram á að fingraför Vinstri grænna hafi verið sett á þessi fjárlög og það er gott. Við höfum til viðmiðunar fjárlagafrumvarp sem var kynnt í september af þeirri ríkisstjórn sem sat þá með aðild Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Það hafa orðið miklar breytingar frá því frumvarpi til frumvarpsins núna. Í heild eru það 18 milljarðar sem hafa komið til viðbótar. Þó að ég ætli ekki að þakka okkur Vinstri grænum einum fyrir þessa viðbót þá höfum við vissulega haft áhrif til góðs og sett inn fjármuni, sem ég tel að hefði alls ekki verið sjálfgefið að hefðu komið inn í fjárlagafrumvarpið; í heilbrigðiskerfið, menntakerfið, innviði í landinu og til ýmislegra félagslegra mála sem hefðu annars ekki verið hér á blaði.

Þeir flokkar sem voru kosnir til þings reyndu hvað þeir gátu að mynda ríkisstjórn og þeir flokkar sem telja sig vera miðjuflokka og til vinstri gerðu tilraun sem gekk ekki upp. Þá tókum við þá afstöðu, Vinstri græn, að ganga ekki úr skaftinu heldur stíga fram og setja í forgang að reyna að mynda vinstri stjórn sem byggðist á því að ná breiðri sátt í samfélaginu með því, vissulega, að gera málamiðlanir en líka að það væri betra að hafa Vinstri græn með áhrif til góðs og ná fram árangri sem annars hefði ekki verið í boði. Með því hugarfari gengum við til þessa ríkisstjórnarsamstarfs.

Ég tel að fyrsta uppskera sé að nást hér, vissulega með stuttum aðdraganda sem sýnir sig líka í þessu frumvarpi að við vorum ekki með kartöflurnar lengi í jörðu áður en við tókum þær upp, en ég er ánægð með þetta skref, ágætt skref. 18 milljarðar frá því sem var sýnt fram á í haust í fjárlagafrumvarpi hlýtur að teljast góður árangur í að efla innviði sem svo mjög hefur verið kallað eftir út í þjóðfélaginu, í heilbrigðismálum, menntamálum, velferðarkerfinu og allri innviðauppbyggingu sem því miður hefur verið fjársvelt allt of lengi.

Það er svolítið ankannalegt að heyra í þeim góða flokki, Samfylkingunni og hinum góðu talsmönnum hennar sem koma hér hver á fætur öðrum og tala bara í prósentum og segja að einhver 2% sé ekki mikill árangur. Það er mjög sérstakt að heyra það. 2% af heildarútgjöldum ríkisins eru 15 milljarðar. Eins og ég skil það erum við núna komin upp í 2,5% sem þýða 18 milljarðar. Við skulum bara tala um krónur og aura í þessu sambandi en hengja okkur ekki í villuumræðu um prósentur. Fólk hefur lítið gagn af því ef það veit ekki af hvaða upphæð prósenturnar eru.

Við Vinstri græn vorum með tillögur fyrir þessar kosningar um að auka á kjörtímabilinu fjármagn í ríkisútgjöldum um 40–50 milljarða á kjörtímabilinu svo við hljótum að vera að taka stórt skref núna í fyrstu fjárlögunum. Það má benda á það að tillögur Samfylkingarinnar fyrir kosningar hljóðuðu upp á 30–40 milljarða aukningu á kjörtímabilinu, sem er í prósentum, af því að mikið er talað um prósentur hér af sumum hv. þingmönnum, upp á 4,2–5,5%. Miðað við þá áætlun hjá Samfylkingunni erum við komin hálfa leið.

Það er ýmislegt sem mun halda okkar ágætu ríkisstjórn við efni á næstu fjórum árum. Við Vinstri græn erum tilbúin til þess. Við munum veita uppbyggilegt aðhald í þessari ríkisstjórn og halda því góða sem kemur fram í stjórnarsáttmálanum til haga, tala fyrir því innan þessa samstarfs, innan þessara raða, hvetja okkur sjálf áfram til góðra verka og okkar samstarfsflokka. Ég er full bjartsýni á að það gangi eftir.

Maður heyrir það úti í þjóðfélaginu að það er ákveðinn léttir að komin sé stjórn sem getur vissulega verið ólík innbyrðis í mörgum grundvallarstefnumálum, þar sem þeir þingmenn sem eru kosnir til ábyrgðar á þingi ætli að leggja til hliðar það sem er ólíkt með þessum flokkum en taka það upp og vinna eftir því sem menn geta sameinast um. Vissulega eru menn að ganga til samstarfs við flokka þar sem þarf að gera málamiðlanir og gefa eftir, en það gera það líka allir.

Í umræðunni undanfarið varðandi bandorminn og útgjaldaaukningu og ágætistillögur sem komu fram hjá stjórnarandstöðunni þá er það nú bara þannig og allir vita það sem hafa fylgst með ríkisstjórnum í gegnum árin að þeir flokkar sem ganga til samstarfs í ríkisstjórn hafa ekki eitthvert hlaðborð til hliðar þar sem hver og einn flokkur getur pikkað upp sína uppáhaldsrétti. Það vita allir heilvita menn. En það er eðlilegt að stjórnarandstaða hverju sinni flaggi sínum tillögum og það eiga menn að gera, tala fyrir sínum tillögum og hvetja ríkisstjórnina til þess að taka viðmið af þeim í sinni vinnu. Það er ekkert sem útilokar það að tillögur stjórnarandstöðu geti verið samþykktar. Við þurfum bara að vinna það vel.

Við erum að taka fyrstu skrefin inn í þetta kjörtímabil. Við Vinstri græn höfum talað fyrir því að við eigum að breyta um vinnubrögð, að þingið eigi að vera sterkara og öflugra, en sum mál eru þannig vaxin að þau þurfa tíma til þess að vinna þau þvert á flokka og saman og það eru mörg mál þannig vaxin sem við eigum eftir að vinna saman með í framhaldinu. Þá nefni ég ýmis stuðningskerfi gagnvart lágtekjufólki, forgangsröðun varðandi stuðning til ungs fólks og húsnæðiskaupa, vaxtabætur, barnabætur, og samstarf og samráð við öryrkja um hag þeirra og áherslur varðandi launaþróun. Þetta er allt sem við ætlum að gera og er búið að sammælast um, liggur fyrir í stjórnarsáttmála. Því verður fylgt eftir.

Ég skil vel óþolinmæði margra sem reikna með að þjóðfélagið gjörbreytist þar sem Vinstri græn eru komin í ríkisstjórn. Vinstri græn fengu tæp 17% atkvæða og sá þingstyrkur segir líka til um hve miklu við áorkum í þessu ríkisstjórnarsamstarfi. En við vitum það vel að við vigtum meira en 17% í þeim framfaramálum sem hér hafa verið samþykkt og munu verða á þessu kjörtímabili.

Þess vegna segi ég við ykkur sem kusuð Vinstri græn að við munum uppskera á kjörtímabilinu miklu meira en við hefðum gert hefðum við verið í stjórnarandstöðu, sem mátti allt eins búast við. Við munum uppskera miklu meira fyrir hag þeirra sem eru verst settir, fyrir heilbrigðiskerfið okkar og menntakerfið og alla innviðina. Við munum sjá uppskeru í öllum þessum málaflokkum, en sú uppskera er ekki í húsi eftir tæpan mánuð frá því að þessi ríkisstjórn komst á koppinn. Það er nú bara þannig.

Svo ég segi það að ég ætla að styðja þessa ríkisstjórn til góðra verka og það munum við gera. Við ætlum líka að vera heil í þessu samstarfi. Við gerum okkur grein fyrir því að það þurfa allir að gera málamiðlanir, þessir þrír flokkar, en við eigum líka að sýna þann þroska að vinna með stjórnarandstöðunni. Stjórnarandstaðan verður líka að gera sér grein fyrir því að ekki er hægt að búast við því að allur stjórnarsáttmálinn og stefnuskrá Vinstri grænna komist í framkvæmd á fyrstu dögum þessarar ríkisstjórnar. Það er óraunhæft og það vita það allir sem vilja vita.

Ég get alveg verið leiðinleg ef ég vil, ég er nú oftast frekar skemmtileg, en ég get verið mjög leiðinleg ef ég vil. Ég skal vera það hérna í lokin. (Gripið fram í: Nei, nei.) Ég fær áskorun um að vera það ekki. Í síðustu ríkisstjórn voru hv. þingmenn sem greiddu atkvæði á móti öllum okkar góðum tillögum Vinstri grænna sem þá voru lagðar fram um hækkun í ýmsum góðum málum varðandi vaxtabætur og barnabætur. Nú koma þeir hv. þingmenn og berja sér á brjóst og vilja auðvitað gera miklu betur, eru búnir að gleyma því að þeir greiddu atkvæði á móti samsvarandi tillögum fyrir nokkrum mánuðum síðan. En svona er pólitíkin.