148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[20:10]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég nefndi þá skil ég markmiðið. Það er alveg virðingarvert markmið að hafa þrepaskiptan persónuafslátt. Mér myndi líka betur við hugmyndir sem snerust um að hækka persónuafsláttinn og þá kannski hækka tekjuskattsprósentu efra þreps á móti eða eitthvað því um líkt. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki reiknað út það samhengi ef maður myndi vilja hækka persónuafsláttinn um einhverja ákveðna upphæð, hversu mikið þyrfti að hækka efra þrep tekjuskattsprósentunnar á móti, ég hreinlega þekki það ekki, en við að hugsa það upphátt hugsa ég að ég reikni það út mér til dægradvalar.

Hitt sem ég velti fyrir mér í sambandi við þróun persónuafsláttarins er annars vegar það að í skýrslunni — sem ég er nú rétt búinn að glugga í vegna þess að hv. þingmaður nefndi hana, þannig að ég er ekki alveg viss um að ég sé með allt samhengi hérna á hreinu, en eins og ég sé persónuafsláttinn þróast hérna frá 1998 til 2016 þá er hann í raun og veru í 94 af hundraði, ef hundraðið er 1998, ég geri ráð fyrir að þarna sé átt við samkvæmt neysluverðsvísitölu. Síðan neðar á blaðsíðu fimm sér maður súlurnar og þar er miðað annars vegar við það ef persónuafsláttur hefði fylgt verðlagi og hins vegar ef persónuafsláttur hefði fylgt launaþróun.

Ég velti fyrir mér, þetta er kannski ekki mjög gáfuleg spurning, það má vera, hvort það sé endilega eðlilegt að persónuafsláttur fylgi launaþróun frekar en verðlagi. Ég sé það ekki alveg í fljóti bragði að það sé endilega nauðsynlegt. Ég er ekki að mæla gegn því hins vegar vegna þess að ég er hlynntur því að hækka persónuafsláttinn og það var það sem við töluðum um fyrir kosningar, ég er alls ekki að mæla á móti því. Ég er bara ekki alveg viss um að endilega hafi persónuafsláttarviðmiðið árið 1998 verið eitthvað heilagra en önnur. Ég er ekkert viss um að við eigum endilega að miða við eitthvert tímabil, að þá hafi allt verið rétt uppsett, (Forseti hringir.) það ætti kannski frekar að miða það við stöðuna sem er uppi núna og þörfunum sem eru uppi núna. Bara út frá því gæti ég stutt að hækka persónuafsláttinn án tillits til þess hvernig þetta var 1998.