148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[21:41]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Jú, þetta er alveg hárrétt. Á þessum þingfundi erum við að ganga frá fjárlögum fyrir árið 2018. Við erum núna að samþykkja í hvað við ætlum að verja þeim fjármunum sem við höfum úr að spila, sem við höfum ákveðið að nota og sem við höfum tekjur fyrir. Það er núna sem við eigum að ákveða það.

Gerist hins vegar eitthvað, ef það verður hérna eldgos og við sjáum ekki fyrir að það muni gerast á árinu 2018, hugsum okkur að völuspár rætist sem búið er að vera að dreifa í dag í dagblöðum og vikublöðum, þá getum við kannski sagt að það hafi verið fyrirséð af því við hefðum átt að lesa spána. Nei, auðvitað ekki. Við vitum það ekki neitt hvort hér verður mikið eldgos, en það mun kosta. Þá getum við farið í varasjóðinn. Þá er mikilvægt að hafa varasjóðinn.

Setjum svo að ferðamönnum fækki meira en við sjáum fyrir og það veldur vandræðum, þá getum við farið í varasjóðinn til að bregðast við því. En við förum ekki í varasjóðinn til að dekka óígrundaða ákvörðun stjórnarmeirihlutans. Það er auðvitað fúsk og ekkert annað en fúsk. Við getum ekki samþykkt það. Þess vegna munum við tala okkur hás þangað til við fáum sönnun fyrir því að stjórnarmeirihlutinn ætli ekki að fúska á þennan hátt og leggja auknar byrðar á framhaldsskólana í landinu.