148. löggjafarþing — 12. fundur,  30. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[00:00]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég fagna því auðvitað að þetta hafi náðst fram. Ég verð þó að nefna að mér finnst skrýtið hvað það þurfti að rökræða málið mikið og í raun berjast fyrir því. Að því sögðu met ég það mikils að það hafi verið hlustað eftir þó nokkurt karp, eins og gengur og gerist, vegna þess að ákvörðunin sem var tekin í atkvæðagreiðslu um bandorminn átti að duga. Það átti ekkert að þurfa að ræða þetta eitthvað frekar, það átti að liggja skýrt fyrir hvað við þyrftum að gera eins og var á fundum efnahags- og viðskiptanefndar.

Ég vil ekki draga úr þessu vegna þess að það er jákvætt að þetta hafi endað svona og gleðilegt að sjá flutningsmenn úr öllum flokkum. Við skulum vona að við getum með minna karpi í framtíðinni náð sambærilegri samstöðu með einföldum rökum og staðreyndum fyrir framan okkur öll.