148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[17:59]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja gleðilegt nýtt ár við alla, þetta er fyrsti dagurinn okkar hérna saman og í rauninni er ég afskaplega þakklát fyrir þessa umræðu og þau erindi sem hér hafa þegar komið fram og andsvörin einnig. Ég vildi gjarnan vera bjartsýn og brosandi og vera jákvæð en ég ætla ekki að vera það. Ég ætla að tala um fólkið í landinu. Ég ætla að tala um sorg. Ég ætla að tala um ótímabæran dauða ungs fólks. Ég ætla að tala um þá staðreynd sem blasir við okkur hér og nú að það ríkir ógnarástand úti í samfélaginu í dag. Fíknivandinn í samfélaginu fer vaxandi og hvað erum við að gera í því?

Ég skrifaði grein sem birtist þann 19. janúar sl. í Morgunblaðinu. Þetta var lítill pistill. Ég fann mig knúna til þess að skrifa hann eftir að ég hafði heimsótt sjúkrahúsið Vog annars vegar og hins vegar farið upp á Vík þar sem eftirmeðferð fíklanna okkar fer fram. Það er í rauninni sárara en tárum taki að hugsa um það að á árinu 2017 dóu 32 Íslendingar undir fertugu vegna fíknivanda. Þar af voru 14 undir þrítugu. Getum við eitthvað gert í því? Ég segi já. Það skiptir engu máli hvort við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu. Við hljótum að geta sammælst um það að þetta er stórt verkefni sem við þurfum að stíga inn í og vinna að af öllum mætti.

Við tölum um skelfileg dauðsföll í umferðinni. Sum þeirra má rekja beint til fíknivandans og þeirra áhrifa sem ökumennirnir eru undir þegar þeir lenda í þessum skelfilegu slysum. Ég er ekki að telja þau dauðsföll inn í þessa 32. Við tölum um 40–50 Íslendinga sem svipta sig lífi á ári. Margir þeirra eru fíklar og þeir eru ekki inni í þessari tölu, 32. Við gætum hugsanlega verið að tala um hátt í 100 Íslendinga á ári. Hvað er það á einu kjörtímabili? Vægt áætlað erum við að horfa á eftir vel yfir 300 Íslendingum í gröfina, ótímabært. Og þetta er okkar fjársjóður. Hvers vegna er ástandið svona? Við verðum að fara að læra að líta heildstætt á myndina.

Hér er talað um að koma á nefndum. Hér er talað um að koma á starfshópum. Ef einhvers staðar einhvern tíma við ættum að setja saman starfshóp þá er það núna. Við erum að tala um svokallaða ópíóíða, sem er náttúrlega afskaplega ljótt orð, það eru morfínskyld lyf. Ég get nefnt Contalgin, Oxycontin er annað. Þetta eru lyf sem eru komin hér á svarta markaðinn og unga fólkið okkar notar til að sprauta sig í æð. Það er skelfilegt ástand t.d. í Bandaríkjunum núna af völdum þessara morfínskyldu lyfja. Það er okkar, okkar sextíu og þriggja sem höfum verið valin hingað inn á Alþingi Íslendinga, að taka utan um þennan málaflokk og gera það svo að við getum verið stolt af því. Það er okkar að koma með forvarnir. Það er okkar að byggja undir börnin okkar. Það er okkar að fara inn í leikskólana, grunnskólana, hjálpa þeim, gera það þannig að þau séu sátt við að ganga út í lífið og það séu ekki rúmlega 30% ungra drengja sem útskrifast nánast ólæsir úr 10. bekk.

Þessi starfshópur sem ég tala um og myndi kalla eftir hér og nú á að taka utan um öll gögn, allar skýrslur, koma með heildstæðan grunn um það hverjir eru það sem leiðast helst út í þennan vanda, þennan ömurlega stað. Við vitum að stétt og staða virðist ekki skipta máli, en það gerir það samt. Það er mun algengara að þeir sem glíma við fátækt, þeir sem fá ekki að fylgja eftir í samfélaginu, þeir sem geta ekki farið í framhaldsnám eða flosna upp úr því, finni sig ekki, þeim líði ekki vel og leiðist út í eitthvað sem þeir hefðu sannarlega kosið að gera ekki.

En við erum heppin. Við eigum frábært fagfólk hjá SÁÁ. Við eigum fagfólk, lækna, hjúkrunarfræðinga, sálfræðinga, geðlækna, frábært fólk sem gæti hjálpað fólkinu okkar á mun öflugri hátt en það hefur kost á og bolmagn til að gera í dag. Það eru yfir 350 manns á biðlista inn á Vog. Það verða ansi margir þeirra dánir áður en röðin kemur að þeim. Það eru 63 rými sem hægt er að hafa í einu í meðferð. Það skortir fjármagn. Það er okkar að forgangsraða og veita fjármagn þangað sem það kemur sér best. Við erum að tala um framtíðina. Við erum að tala um börnin okkar. Við erum að tala um skelfingu. Það er okkar að reyna að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að þurrka þetta út. Við eigum að skera upp herör gegn þeirri ömurlegu vá sem fíkniefnavandinn er í dag. Við eigum heldur ekki að refsivæða hana þannig að við sjáum ekkert annað í stöðunni en henda þeim í steininn sem leiðast út af brautinni eða refsa þeim á annan hátt. Við eigum að taka utan um fólkið okkar og hjálpa því.

Eins og staðan er núna hjá SÁÁ, vissuð þið það, þá eru þeir að fjármagna sjálfir göngudeildina sem þeir eru með til þess að taka utan um fólkið eftir að það er búið að vera í fjórar vikur á Vogi. Þeir fjármagna hana sjálfir. Þeir fá ekki krónu frá ríkinu í göngudeildina. Samt eru þeir þar með sálfræðiþjónustu fyrir börn alkóhólista og fíkla, með geðþjónustu og göngudeild. Við ættum að skammast okkar fyrir að styrkja þá ekki betur en raun ber vitni. Ég skora á okkur að taka höndum saman því ég veit að það er vandfundin sú fjölskylda á Íslandi í dag sem ekki hefur notið hjálpar SÁÁ og á einhvern fjölskyldumeðlim sem hefur þurft á hjálp þeirra að halda. — Ég ætla að fá að fá mér vatnssopa því nú er ég orðin svo hjartanlega hugsjónafull að ég er öll að þorna upp.

En í alvöru talað. Þetta er vægast sagt dapurlegt. Við þurfum ekki að hafa þetta svona. Við erum eyja norður í ballarhafi og með þetta dóp sem flæðir hérna inn og annað slíkt; ef það er einhver þjóð sem ætti að geta staðið fyrir því að fylla ekki landið af þessu sem kemur utan að frá, a.m.k. það, þá erum það við. Við njótum ákveðinnar sérstöðu og við eigum að nýta okkur hana í auknum mæli. Við eigum að nýta okkur það hvar við erum stödd á landakortinu.

Þórarinn Tyrfingsson, sá maður sem ég myndi segja að hefði hvað mesta hugsjón, reynslu og þekkingu á þessum vanda sem ég er að tala um, segir að það sé hreinlega að verða stökkbreyting í dag. Við horfum upp á gjörólíkt landslag. Bara á milli áranna 2016 og 2017 þá dóu fimm fleiri ungmenni vegna neyslu á þessum ömurlegu lyfjum.

Ég þarf ekki að segja meira. Ég held að ég sé búin að segja allt sem segja þarf. Framtíðin er okkar. Það skiptir engu máli í hvaða flokki við erum, þetta er eitt af þeim málum sem við hljótum að geta tekið höndum saman um eins og við gerðum í morgun þegar við komum saman í #metoo-byltingunni, eins og við erum að gera núna þegar við ætlum að reyna að vinna saman að bættri og breyttri stjórnarskrá. Það er nákvæmlega hérna sem við getum tekið höndum saman og unnið til heilla fyrir unga fólkið okkar og framtíðina í þessu landi.