148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

skipun dómara við Landsrétt.

[13:37]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Hér gefast mér bara tvær mínútur til þess að svara nokkrum spurningum sem ég skal ljúka við að svara, þ.e. þeim sem varpað var fram í upphafi. Fundir mínir með formanni nefndarinnar voru haldnir af augljósum ástæðum. Ég átti fund með formanni hæfisnefndar til þess að afhenda honum umsóknir sem ráðuneytinu höfðu borist. Í framhaldinu átti ég fund með formanni nefndarinnar þar sem mér voru kynnt drög að umsögnum. Viku síðar var mér afhent umsögnin endanlega og hafði ég engin afskipti, ekki nokkur einustu afskipti af störfum nefndarinnar þótt við höfum átt samtal, formaðurinn og ég, um það hvernig þeim störfum væri háttað. Var mjög upplýsandi fyrir ráðherra að heyra það.

Ég hef talað hér um tveggja vikna frestinn. Hann er ákveðinn í lögum. Þegar ráðherra hefur skilað af sér tillögu til þingsins hefur hann ekkert um það að segja hvað þingið starfar lengi eða hvaða frest þingið vill gefa sér til að afgreiða málið. Það var algjörlega úr höndum ráðherra og alfarið (Forseti hringir.) í höndum þingsins.

Svo vil ég leggja á það áherslu og hef lýst því ítarlega hvernig ég lagði heildstætt mat á alla umsækjendur í ljósi þess að verið var að skipa (Forseti hringir.) 15 dómara en ekki einn dómara. Þá er ekki annað hægt (Forseti hringir.) en að leggja heildstætt mat á alla umsækjendur (Forseti hringir.) með ýmis þau sjónarmið uppi voru, m.a. sem þingið hafði á þeim tíma (Forseti hringir.) við þessar skipanir.