148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[15:55]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir spurningu hans. Hún er má segja risastór. Fyrst að því hvort eitthvað hafi farið fram hjá hv. þingmanni varðandi fjárfestingar. Ég held að ég geti svarað því neitandi, ég held að hv. þingmaður sé afar glöggur og vinnusamur þegar kemur að tölum, að hann hafi örugglega náð öllu sem fram kemur í stefnunni. Það er hins vegar rétt sem hv. þingmaður segir og kom fram í andsvari hv. þingmanns og hæstv. fjármálaráðherra, að það skortir á yfirlit yfir langtímaskuldbindingar. Það er kjörið tækifæri fyrir hv. fjárlaganefnd að fara vel í saumana á því. Ég held að það hafi alveg legið fyrir og þetta er mjög góð spurning.

Varðandi þróun eigna og ábendingu hv. þingmanns um stofnefnahagsreikninginn þá tökum við það mál til umfjöllunar síðar í dag, en við horfum á gjörbreytta framsetningu efnahagsreikninga. Við getum tekið stofnanir eins og Vegagerðina og Landhelgisgæsluna. Þar verður gjörbreyting. Ég bind alla vega vonir við að það gefi réttari mynd af eignaþróun þegar við horfum á efnahagsreikninga til lengri tíma og að það hjálpi til við það.

Við greinum á milli fjárfestinga atvinnuvega og hins opinbera. Það er afar mikilvægt þegar við horfum á fjárfestingar hins opinbera að horfa til arðbærni verkefna og hagkvæmni. Við notum það kannski markvissar og betur og erum með virkari forgangsröðun í slíkum verkefnum inn í framtíðina en verið hefur.