148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[17:28]
Horfa

Elvar Eyvindsson (M):

Forseti. Mig langar að koma að tveimur atriðum. Í fyrsta lagi, af því að við erum að tala um stöðugleika og varfærni og slíkt, er ég svolítið hissa á því að ekki skuli vera gerður greinarmunur á erlendum og innlendum skuldum þegar talað er um varfærni í skuldsetningu ríkisins. Það er grundvallarmunur á slíkum skuldum. Erlendar skuldir eru miklu hættulegri hlutur í kreppunni.

Svo er annað sem mig langar að koma að um stöðugleikasjóðinn sem stefnt er að því að koma á. Það má eiginlega segja að maður sakni þess svolítið núna að hann skuli ekki vera til en þá þyrfti hann að vera til í erlendri mynt, að ég tel. Ef við hefðum hugsanlega getað í þessari gríðarlegu uppsveiflu safnað í þá stöðugleikasjóði í erlendri mynt og haldið aðeins aftur af gengishækkuninni myndi niðursveiflan ekki verða eins harkaleg og er hætt við að hún verði þegar hún loksins verður, af því að nú erum við kannski farin að ganga á getu útflutningsatvinnuveganna og við erum að skaða þá innlendu atvinnuvegi sem eru í samkeppni erlendis frá en í raun og veru eyðum og spennum aðeins um efni fram. Þannig gæti stöðugleikasjóður að mínu viti virkað og mín vegna, þótt ég viti ekki hvernig ætti að útfæra það, mættu lífeyrissjóðirnir taka þátt í slíkum stöðugleikapakka.