148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[17:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Mér þykir nú vænt um að fá að tala hér í dag, ég velti fyrir mér áðan hvað ég hefði gert af mér.

Við fjöllum um fjármálastefnu og ég reikna ekki með, frú forseti, að nýta allan ræðutíma minn í þetta plagg því að það á að sjálfsögðu eftir að fara til fjárlaganefndar og fá þar umfjöllun. En það er þó þannig að í umræðunum í dag hafa komið fram margvíslegar áhyggjur af stefnunni og ekki síst þeim varnaðarorðum sem fjármálaráð hefur uppi. Margir þingmenn sem hér hafa talað hafa ýmiss konar reynslu af því að starfa í þessum heimi, hvað á ég að segja, úti í heiminum fyrir utan þinghúsið, þar sem verið er að semja um kaup og kjör, verið að reyna að gera áætlanir fyrir fyrirtæki og rekstur til lengri tíma.

Fjármálastefnan er vitanlega bara einn hluti af þessari þríliðu, ef ég má orða það þannig; fjármálastefna, fjármálaáætlun og svo fjárlögin. Stefnan setur kannski og setur í rauninni stóru línurnar, umgjörðina sem menn reyna að átta sig á og spá fyrir um til næstu ára. Þess vegna eru það svolítil vonbrigði að í ábendingum fjármálaráðs koma fram ábendingar sem hafa komið fram áður, þ.e. menn hafa varað við því að líkönin séu ekki nógu góð o.s.frv. Einnig er hægt að taka undir með fjármálaráði að vitanlega væri æskilegt að hafa betri útlistun á pólitískum stefnumiðum ríkisstjórnarinnar þegar verið er að ræða þessa stefnu. Þó svo að einhvers konar stjórnarsáttmáli liggi fyrir þá er það vitanlega framkvæmd hans og hvernig á að tímasetja það sem þar er sem skiptir miklu máli þegar við lesum stefnuna og síðan áætlunina saman að sjálfsögðu.

Ég velti fyrir mér þegar ég les ábendingar fjármálaráðs og stefnuna sjálfa að lítt, virðist vera, er velt fyrir sér hvaða áhrif árið 2018, með kjarasamningum og öðru, kann að hafa á þessar fyrirætlanir, þá stefnu sem þar er. Það er hins vegar eitthvað sem ég held að hljóti að skipta máli hvernig í það minnsta lokin á þessari áætlun kunni að standast. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hæstv. fjármálaráðherra í dag að við megum vitanlega ekki gleyma að fókusera á grunnatvinnuvegi landsins, eins og hæstv. fjármálaráðherra orðaði það; við þurfum að hugsa það hvort við getum stutt betur við grunnatvinnuvegi landsins. Og þá fer maður að íhuga hvort það sé ekki einmitt það sem vantar aðeins inn í stefnu ríkisstjórnarinnar, þ.e. hvernig hún sér grunnatvinnuvegina. Það er ljóst að skattar á sjávarútveg munu stórhækka núna, auknir skattar eru á hann, fyrir utan stóriðjuna að sjálfsögðu og flugið, sem losa kolefni. Ekki er staðið við fyrirheit um að lækka tryggingagjald sem skiptir gríðarlega miklu máli, ekki síst fyrir minni fyrirtæki. Það vantar því svolítið upp á það hjá þessari ágætu ríkisstjórn að horft sé á atvinnulífið, því að að sjálfsögðu verðum við að hafa sterkt atvinnulíf ef við ætlum að vera með sterkan ríkissjóð og gera vel við launþega landsins.

Einnig er ljóst að stefnan gerir að einhverju leyti ráð fyrir þeim fjárfestingum sem ríkisstjórnin hefur boðað en þó virðist það kannski ekki vera að öllu leyti. Það eru miklir fyrirvarar í stefnunni. Fjármálaráð bendir á að mikilvægt sé að hafa betri mynd og betri módel, betri líkön til að geta gert þessar áætlanir nákvæmari. Það er aðeins pirrandi að ekki sé í rauninni einhent sér í að gera það. Hæstv. fjármálaráðherra sagði vissulega að í ráðuneytinu sé verið að reyna að þróa þessa aðferðafræði, en ég velti fyrir mér, og kannski er það bara mjög einfalt, að fá líkön sem hafa virkað annars staðar til að nota hér við slíka gerð. Við þurfum kannski ekki endilega að finna það allt saman upp aftur, finna það upp frá grunni ef það er til, ég veit svo sem ekkert um það. En fjármálaráð kemur einmitt inn á þessa einsleitni sem líkönin eru sem verið er að vinna eftir. Nú náði ég því miður ekki að kynna mér það áður en ég fór í ræðustól hvað greiningardeildir viðskiptabankanna hafa t.d. verið að senda frá sér undanfarið, hverju helstu aðilar á vinnumarkaði hafa verið að velta fyrir sér fyrir einmitt þetta tímabil. Ef það er þannig að allir aðilar vinni meira og minna með sömu hugmyndirnar, sama módelið, þá verðum við að sjálfsögðu, hvað á ég að segja, berskjaldaðri fyrir óvæntum uppákomum. Þetta þarf að sjálfsögðu að laga með öllum tiltækum ráðum.

Ég minntist fyrr í dag á áhyggjur sveitarfélaga og sér í lagi Reykjavíkurborgar. Ég hygg að þær áhyggjur séu svo sem víða um land. Fjármálaráðherra benti á að búinn væri að vera góður gangur hjá sveitarfélögunum, en það breytir því hins vegar ekki að mikilvægt er að sú raunmynd sem þar er sé tekin inn í áætlunargerð sem þessa eða stefnumótun.

Í athugasemdum fjármálaráðs er líka rætt um fjárstreymi vegna óreglulegra tekna. Ég minnist þess ekki að hæstv. fjármálaráðherra eða einhver annar stjórnarliði hafi reynt að gera grein fyrir því hverjar þessar óreglulegu tekjur eru til lækkunar skulda, hvort það eru einhverjar einskiptisaðgerðir eða peningar sem koma úr sölu banka eða einhverju slíku, eða hvort þetta eru tekjur sem koma af hagnaði ríkisfyrirtækja, sölu bréfa eða hvað það er sem er að koma þar inn. Fjármálaráð kallar eftir ítarlegri upplýsingum og við gerum það að sjálfsögðu líka.

Það sem skiptir að sjálfsögðu máli í þessu öllu er að fjármálaáætlunin, sem síðar mun byggja á þessari fjármálastefnu, sé þá í takt við stefnuna og endurspegli þau fjárlög líka sem eru gerð. Það er mikilvægt að allt þetta tali saman einni röddu þannig að við séum ekki með misvísandi skilaboð.

Frú forseti. Minnst var á Þjóðhagsstofnun í dag eða mikilvægi þess að þingið hefði yfir betri tækjum að ráða til að meta efnahagsástandið og tek ég heils hugar undir það. Mjög mikilvægt er að við horfum til þess að gera þingið sjálfstæðara í öllum sínum vinnubrögðum, ekki síst þegar við fjöllum um svona veigamikil stefnumótunarplögg eins og þessa fjármálastefnu, fjármálaáætlun líka að sjálfsögðu. Þingið eða þingmenn svo dæmi sé tekið hafa mjög takmarkaða möguleika eða, ég leyfi mér að sletta, „resources“ til að leita eftir aðstoð eða einhvers konar upplýsingum, gera sjálfstæðar kannanir, rannsóknir, eitthvað slíkt, þetta þarf að laga. Einhvers konar styrkt batterí á vegum þingsins, þjóðhagsstofnun eða sterkari hagdeild á vegum þingsins, er eitthvað sem væri mikilvægt og vel þegið og tek ég undir með þeim sem hafa nefnt það í dag. Við megum nefnilega ekki gleyma því að þingið hefur mikið eftirlitshlutverk með framkvæmdarvaldinu og þess vegna er svo mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir hvað þetta plagg nákvæmlega þýðir. Nú fer það vissulega til fjárlaganefndar og fjárlaganefnd hefur einhvern tíma til að fara yfir plaggið, kalla eftir athugasemdum og eitthvað slíkt, en æskilegra væri ef hægt væri að leita eftir sjálfstæðri athugun hjá einhverju sérstöku batteríi á vegum þingsins.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra varðandi málið, það er búið að fá ágætisumfjöllun í dag. Mikið hefur komið fram í andsvörum og öðru og ég hlakka til að sjá hvað kemur út úr vinnu fjárlaganefndar og hlakka til síðari umr. sem ég held að verði ekki síður gagnlegri en sú sem farið hefur fram í dag.