148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

ábendingar í rannsóknarskýrslum Alþingis.

78. mál
[15:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil láta það koma fram að almennt hef ég ávallt stutt skýrslubeiðnir, enda séu þær settar fram í anda þess stjórnkerfis sem við búum við. Við höfum Ríkisendurskoðun til að gera ýmsar stjórnsýsluúttektir. Það eru dæmi um slík mál á dagskránni hér í dag. Við höfum sett á fót sérstakar rannsóknarnefndir. Um þau mál var reyndar fjallað í sérstakri greinargerð um rannsóknarnefndir Alþingis samkvæmt lögum um rannsóknarnefndir 68/2011 þar sem komu fram fjölmargar ábendingar um hvaða aðdraganda menn ættu að hafa að því að fara út í svona mikla skýrslugjöf.

Það var að gefnu tilefni. Menn höfðu þá farið 447 milljónir fram úr fjárheimildum við þær skýrslugjafir til þingsins. Samtals kostuðu skýrslurnar fyrir Íbúðalánasjóð og sparisjóðina 928 milljónir á sínum tíma, fyrir utan 343 millj. kr. kostnað við rannsóknarnefnd Alþingis.

Aðalatriði málsins hér er að þingið hefur samþykkt ályktun um hvernig (Forseti hringir.) eigi að bregðast við. Þar er ábendingum beint víða út í samfélagið. Ekki til fjármálaráðuneytisins. Og það sem meira er: Þingið hefur áður (Forseti hringir.) ályktað að það sé þingnefnd sem eigi að hafa eftirlit með framgangi þeirra breytinga sem kallað var eftir.