148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

ábendingar í rannsóknarskýrslum Alþingis.

78. mál
[15:50]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Mér þykir umhugsunarefni að við stöndum hér í dag og það stefni í að við greiðum sum atkvæði gegn skýrslubeiðni sem mér sýnist á vef Alþingis að gerist bara nánast aldrei. Skýrslubeiðni hefur ekki verið felld á þessari öld. Ég fletti upp til ársins 2010 og það hefur enginn greitt atkvæði gegn skýrslubeiðni á þeim tíma.

Mér heyrist á umræðunni hér að við séum sammála um inntakið, um að fara yfir það sem gert hefur verið í kjölfar rannsóknarskýrslnanna og hefði þess vegna talið að það væri vænlegra og málefninu til framdráttar að það fyndist einhver leið þar sem við getum sameinast um leiðina fram á við, frekar en að taka þetta í atkvæðagreiðslu í þingsal.

Hér nefndi hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, að mig minnir, þingsályktunartillögu, nei, það var hv. Óli Björn Kárason sem nefndi það, að þetta væri kannski frekar efni í þingsályktunartillögu til heildaruppgjörs. Ég vil lýsa því yfir að verði þessi skýrslubeiðni ekki samþykkt verð ég meðflutningsmaður á slíku máli.