148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

ábendingar í rannsóknarskýrslum Alþingis.

78. mál
[15:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég man ekki eftir því síðan ég tók sæti á þingi árið 2009 að beiðni sem þessi hafi verið felld í þingsal. Þetta eru kannski nýju vinnubrögðin sem verið er að boða, að það eigi að fara að skoða vandlega út frá pólitískum hagsmunum, eitthvað slíkt, hvers konar skýrslur eigi að samþykkja, ég veit það ekki.

Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort verið sé að beina skýrslunni í réttan farveg. Ég velti því upp við forseta hvort það geti verið að beiðni eigi að vera til forsætisráðherra frekar en fjármálaráðuneytisins. Að því sögðu sé ég í sjálfu sér ekkert að því að þessi skýrslubeiðni fari fram eins og allar aðrar. Það er svo að sjálfsögðu hlutverk ráðuneytisins að meta hversu mikinn metnað eða vinnu þarf að leggja í að svara þessari skýrslu. Það er hins vegar mjög nýtt ef hún verður felld, það verður athyglisvert, ekki síst í ljósi hinnar miklu umræðu um að efla þingið og allt það.