148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

ábendingar í rannsóknarskýrslum Alþingis.

78. mál
[15:57]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Sá sem hér stendur sat í þingmannanefndinni sem fór yfir rannsóknarskýrslu Alþingis á sínum tíma. Ég held að mikilvægt væri að farið yrði yfir þær skýrslur sem við höfum látið gera á þinginu, farið yfir þær ábendingar með þeim hætti sem skynsamlegt er. Við lögðum til á þeim tíma að þingið gerði það. Til að efla þingið er einmitt skynsamlegt að þingið sjálft láti gera slíkar úttektir.

Við höfum líka rætt það þegar við höfum sett á laggirnar rannsóknarnefndir, af reynslu, að af því að við vitum ekkert um umfangið, vitum ekkert um kostnað, tíma né annað verði verkið stjórnlaust. Ég hef fengið skýrslubeiðnir sem ráðherra sem tók meira en ár fyrir einn starfsmann að vinna og kom margsinnis hingað inn að biðja um frest til að skila skýrslunni. Ég held að skynsamlegra sé að við stöndum saman um að fá þessa niðurstöðu fram, hverju skýrslur okkar og rannsóknarnefndir hafa skilað og hvaða árangri það hefur skilað. Ég held að mjög skynsamlegt sé að þingið geri það en ekki framkvæmdarvaldið sem viðkomandi stofnanir heyra undir, eins og t.d. hjá félagsmálaráðherra sem Íbúðalánasjóður heyrir undir, svo dæmi sé tekið. Ég held að til að efla þingið sé skynsamlegt að þingið geri það.