148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

fæðingar- og foreldraorlof.

98. mál
[16:17]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ísland var í forystu á sínum tíma þegar fæðingarorlofskerfið var innleitt, einmitt af Framsóknarflokknum og þáverandi félagsmálaráðherra Páli Péturssyni sem kom með fæðingarorlofslöggjöfina. Það er gríðarlega mikilvægt að við eflum hana og styrkjum. Þess vegna verð ég að segja að ég held að á sínum tíma þegar við þurftum eftir efnahagshrunið að skera niður á mörgum sviðum samfélagsins að einmitt gagnvart þessum þætti hafi verið mikil mistök að ráðast í niðurskurð á fæðingarorlofskerfinu, lækkun greiðslna og annað slíkt.

Þá langar mig að spyrja á móti og svara spurningunni með annarri spurningu: Er hv. þingmaður, formaður Samfylkingarinnar, ekki sammála mér um að það hafi verið mistök á sínum tíma af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur að skera niður fæðingarorlofið? Getum við ekki sameinast um að hækka það á nýjan leik? Við munum vonandi taka inn þessa jaðarhópa sem ég kom inn á og hafa verið hér til umræðu og getum svo hækkað þetta með myndarbrag, byggt upp og haldið áfram að byggja á þessari norrænu félagslegu velferð þar sem fæðingarorlof er lykilatriði.