148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

fæðingar- og foreldraorlof.

98. mál
[16:22]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég styð þetta mál, ég byrja á að nefna það. En ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki heyrt punktinn sem hv. þm. Halldóra Mogensen kom með áðan í sambandi við einstæða foreldra.

Ég hef velt þessum málum almennt fyrir mér. Mig langar að hugsa upphátt með hv. þingmanni um þetta mál. Nú eru þrír mánuðir á hvort foreldri og svo eru þrír mánuðir sem þeir geta skipt á milli sín. Tillagan hér fjallar um að það verði fimm mánuðir fyrir hvort foreldri og tveir sem þeir geta skipt á milli sín. Ég hef lengi velt fyrir mér hvers vegna við séum með tíma sem þeir geta skipt á milli sín. Í mínum huga snýst sá tími um að veita barninu tilhlýðilega athygli sem foreldri, sem er í mínum huga ekkert valkvætt. Ég sé ekki alveg hvers vegna það ætti að vera valkvætt. Sér í lagi vegna þess að tilhneigingin er sú að konan taki orlof meiri hluta tímans vegna þess að konur eru með lægri laun en karlar.