148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

fæðingar- og foreldraorlof.

98. mál
[16:26]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég er í rauninni algerlega sammála þingmanninum. Með þessu frumvarpi göngum við skref í þá átt að binda þetta enn frekar en orðið er, festa þetta. Nú er mikill meiri hluti tímans bundinn, reyndar ólíkt því sem Svíar hafa gert. Það gæti orðið forvitnilegt að heyra af hverju Svíar hafa farið þá leið því að Svíþjóð er e.t.v. það land í heiminum sem hefur náð mestum árangri á mörgum sviðum jafnréttismála.

En ég held að þetta sé úrlausnarefni sem við getum örugglega komist að niðurstöðu um og notað heilbrigða skynsemi, fengið hjálp og fengið gesti inn á fundi til að leiða okkur bestu lausnina fyrir sjónir. En síðan þarf að taka tillit til þeirra ábendinga sem hv. þm. Halldóra Mogensen kom með. Það eru jafnvel til börn sem eiga bara eitt foreldri vegna þess að hitt er dáið. Það á auðvitað ekki að bitna á barninu.