148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

fæðingar- og foreldraorlof.

98. mál
[16:58]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni svarið. Ég vil þá velta fyrir mér í framhaldi af þessu að það er tekjulægsti hópurinn sem fær einungis fæðingarstyrk og svo er hópur námsmanna sem fær fæðingarstyrk námsmanna sem er þó 170 þús. kr. Það er oft á tíðum fólk sem er jafnvel búið að vera á vinnumarkaði tíu sumur eða lengur og hefur þess vegna greitt umtalsverðar upphæðir í tryggingagjald en nýtur þess samt sem áður ekki að hafa tekið þátt í atvinnulífinu með þessum hætti. Ég tek undir það að ábyrgð stjórnvalda er mikil en ég held að ábyrgð vinnumarkaðarins sé líka mikil og það þurfi að nálgast málið á annan hátt. Ég spyr hvort þingmaðurinn geti tekið undir það með mér.