148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

fæðingar- og foreldraorlof.

98. mál
[17:07]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega ræðu. Hann er auðvitað mjög vel inni í málaflokknum og var góður félags- og jafnréttismálaráðherra í fyrra. Mig langar að spyrja aðeins út í dvöl hans þar.

En fyrst: Það sem þingmaðurinn talar um sem sveigjanleika, þar á hann væntanlega við að kerfin nái yfir hvort annað svo foreldri geti ráðið hvort það setji barnið í dagvistun eða sé lengur heima. Mér finnst þetta áhugavert. Nú er það svo að sveitarfélögin bera mikinn kostnað af leikskólaplássi. Það er 120–140 þús. kr. fyrir barn á mánuði eða eitthvað svoleiðis, verulegur kostnaður. Það væri fróðlegt að vita hvort ráðherra hafi á sinni tíð lagst yfir kostnaðinn sem af þessari brúarsmíði hlytist og hvor leiðin væri í raun ódýrari, að teygja fæðingarorlofið lengra eða draga niður leikskóladvölina. Það skiptir máli. Með einum eða öðrum hætti þarf ríkið að koma að því þegar sveitarfélög breyta sínu fyrirkomulagi.

Og í framhaldi af því vil ég spyrja hvort það hafi átt sér stað eða verið hafin einhver umræða við sveitarfélögin um þetta tiltekna mál. Ég veit að menn höfðu í bígerð að ræða almennt um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga, en hvort menn hafi verið byrjaðir á þessu.

Hv. þingmaður setur fram áhugaverð sjónarmið um jafnréttisvinkilinn í þessu máli sem ég er honum hjartanlega sammála um.