148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

skilyrðislaus grunnframfærsla.

9. mál
[17:36]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla nú ekki að taka undir orð hv. þm. Þorsteins Víglundssonar um að ég sé efasemdamaður. Mér finnst þetta fullkomlega fráleitt. Ég er ekki hrifinn af einhverjum samfélagslegum tilraunum eins og menn reyndu með sósíalismanum á síðustu öld. Ég held að þessi samfélagstilraun væri enn þá verri og skaðlegri. En það sem vefst fyrir mér í þessu er hvernig hægt er að tengja þetta við einhvers konar almannatryggingar.

Almannatryggingar eru hugsaðar sem grunnframfærsla fyrir þá sem ekki geta aflað sér tekna. Af hverju eigum við að nota sameiginlega sjóði til þess að láta fullfært fólk með háar tekjur, eða hvað sem er, hafa peninga úr sameiginlegum sjóðum? Þessi hugsun er svo galin. Við eigum auðvitað að tryggja öllum grunnframfærslu sem einhverra hluta vegna geta ekki aflað tekna, þ.e. þeir missa kannski vinnuna tímabundið, geta ekki unnið og svo framvegis. En að tengja þetta almannatryggingum og að þetta hafi eitthvað með fátæktina að gera og bjargi henni eitthvað — þetta bjargar henni auðvitað ekki neitt. Þeim sem ekki geta aflað tekna eða missa vinnuna einhverra hluta vegna er nú þegar tryggð lágmarksframfærsla.

Mér er óskiljanlegt að menn tengi þetta saman og fæ alltaf kvíðaverki þegar menn vitna í hálfdauða eða löngu dauða heimspekinga sem reyna að segja okkur hvernig við eigum að hafa þetta. Því að allt sem þetta fólk hefur sagt í gegnum tíðina hefur reynst meira og minna rangt. Karl Marx er gott dæmi.