148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

ÖSE-þingið 2017.

87. mál
[13:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þetta með hv. þingmanni, þessi öryggismál eru áhyggjuefni. Ég ætla nú að leyfa mér að segja að við Íslendingar erum frekar kærulaus þegar að þessum málum kemur. Ég þekki þau dæmi ágætlega sem hv. þingmaður nefndi, t.d. varðandi Danina, hvernig þeir haga sínum málum.

Nú hef ég verið hinum megin við borðið líka, hjá framkvæmdarvaldinu, verið ráðherra á ýmsum stöðum, og ég mundi segja að utanumhald hjá okkur sé frekar kæruleysislegt. Auðvitað reynum við að passa okkur, menn passa sig eins langt og það nær. Það er hins vegar misjafnt eftir því hvernig ástandið er hverju sinni. Þegar þú ert á fundi hjá NATO, innan þess svæðis, inni í NATO-byggingunum, ertu býsna öruggur með síma og tölvur, hins vegar máttu ekki nota þau tæki alls staðar, það eru reglur um það. En á fundum eins og þeim sem við vorum á í Hvíta-Rússlandi erum við mjög berskjölduð; við fáum til dæmis ekki neinar leiðbeiningar frá þinginu þegar við förum á þessa staði, hvað þá að við fáum tæki og tól sem tryggja betur gagnaöryggi eða þær upplýsingar sem við erum með.

Kannski er þetta kæruleysi, kannski meta menn það þannig að við höfum ekkert að fela, að við séum ekki að sýsla með nein ríkisleyndarmál. Ég veit það ekki, en þetta er í raun ekki boðlegt. Þess vegna verðum við að taka þetta alvarlega, hlusta á þá sem hafa reynslu og læra af því og bæta þennan öryggisþátt okkar. Menn geta alveg komist í gegnum okkar tæki eins og öll önnur. Ég fagna þeirri umræðu sem hv. þingmaður hefur hér, svo sem ekki í fyrsta sinn sem Píratar tala um öryggi í netheimum eða í þeim tækjum og tólum sem við erum að nota, en þetta er eitthvað sem við verðum að taka alvarlega.