148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

birting dagskrár þingfunda.

[14:13]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég bjóst ekki við að þetta yrði heil umræða en ég fagna því þó vegna þess að þetta er mikilvægt og ekki aðeins fyrir okkur sem sitjum á þingi heldur líka fyrir almenning og hagsmunaaðila úti í bæ sem koma oft með athugasemdir á tíma sem er ekki í neinu samræmi við málsmeðferð þingsins. Ég held að það sé sjálfstætt vandamál sem við lítum ekki oft til vegna þess að við erum ekki þar, alla vega ekki alla jafna.

Mér finnst svolítið leiðinlegt, og ég segi þetta með fullri virðingu fyrir virðulegum forseta, að alltaf þegar þessi umræða kemur upp er gert lítið úr vandanum og látið eins og þetta sé ekki neitt alvöruvandamál, það hafi verið rætt á einhverjum þingflokksformannafundi einhvern tímann. Ég hef setið þá fundi og veit hvernig það er. Þar er gróf útlistun á því sem virðulegur forseti sér u.þ.b. fyrir sér að verði. En það er ekki nóg til þess að þingmenn geti undirbúið sig almennilega. Það hlýtur að vera staðreynd. Það hlýtur að vera viðurkennt vandamál, jafnvel ef við getum kennt um hlutum eins og vinnubrögðum minni hlutans hverju sinni eða hvað það er. Óháð því hlýtur þetta að vera vandamál sem við verðum að viðurkenna og horfast í augu við og sameinast um að leysa. Ég legg ekki til (Forseti hringir.) að dregið sé neitt úr málfrelsi þingmanna til að ná því markmiði.