148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

félagsleg undirboð og svik á vinnumarkaði.

[14:27]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. 6. þm. Suðurkjördæmis Oddnýju G. Harðardóttur, fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga málefni. Ég fullyrði að við öll hér í salnum erum sammála um að við viljum ekki að verið sé að svíkja fólk á vinnumarkaði, að ekki sé farið að lögum og kjarasamningar ekki virtir. Ég tel að við séum öll sammála um það.

Við erum þess vegna í þessari umræðu og það er mikilvægt að við skoðum hér í þingsal hvaða leiðir og hvaða lausnir við sjáum. Ef við notum tímann í að tala um hvað sé að nýtum við ekki endilega tímann til góðs.

Ég er hrifin af því sem hæstv. ráðherra fór yfir varðandi frumvarpið sem lagt verður fram nú á vorþinginu. Það verður spennandi að sjá hvernig þingflokkarnir munu bregðast við, hvort ekki verði allir saman í því að klára það mál og bæta, ef eitthvað þarf að bæta, í frumvarpi ráðherrans varðandi það. (Gripið fram í.)

Bregðast við strax, hv. þingmaður Miðflokksins kallar eftir því. Já, gott og vel. Ég held að ráðherrann sé að koma fram með frumvarp. Þá er búið að svara þeirri spurningu.

Ég tel að það sé mikilvægt að fyrirtæki sem starfa á Íslandi vinni í einföldu umhverfi. Ef maður vinnur í einföldu umhverfi, ef skattkerfið er einfalt og allir skilja leikreglurnar, er erfiðara að fela sig. Við höfum öll prófað að fara í feluleik við börnin okkar. Það er erfitt að fela sig þegar herbergið er einfalt með fáum hlutum í en erfiðara þegar umhverfið er flókið. Ég held að það sé eitt atriði. Við viljum að fyrirtækin hér vaxi og dafni en við viljum að þau starfi innan þeirra reglna sem við höfum sett og að sjálfsögðu að þau greiði samkvæmt kjarasamningum og semji og geri vel við sitt starfsfólk. Við viljum að vinnumarkaðurinn sé heilbrigður og að greidd séu sanngjörn laun fyrir það vinnuframlag sem hver og einn launþegi reiðir af hendi.

Ég hlakka til að hlusta á lausnir þeirra þingmanna sem ætla að blanda sér í umræðuna. Með því að benda á lausnir (Forseti hringir.) og einbeita okkur að því hvernig við ætlum að leysa málin aukum við traust á Alþingi.