148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

Samgöngustofa, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

109. mál
[15:11]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef minni áhyggjur af aðgenginu sem slíku. Ég hef meiri áhyggjur af þessari tvítekningu, þ.e. ekki einu sinni tvítekningu, þ.e. að aðgengi að lögum sé á tveimur stöðum. Það er í rauninni verið að breyta því að lögin séu birt á einum stað í það að þau séu birt á tveimur stöðum og það geti orsakað ákveðið vandamál sem markmiðið er að reyna að einfalda. Það að birta lögin í Lögbirtingablaðinu og Stjórnartíðindum er kannski flókið fyrir þessar tegundir af lögum, en á sama hátt verður það líka flókið að birta þau á einhverjum öðrum stað sem er kannski ekki eins gagnsætt varðandi réttindi notenda og farið er mjög vel í áhugaverðum texta um þróun einmitt lögsögu manna o.s.frv. sem flytja lögin yfir í þetta kerfi núna þar sem við erum með rafræna útgáfu á Stjórnartíðindum og Lögbirtingablaði. Ég segi svona hálfa rafræna birtingu því að það vantar tölvutæka birtingu á þeim gögnum. Það væri kannski skref sem við gætum tekið frekar að gera þetta tölvutækara, sem sagt sniðmátið á Stjórnartíðindum og Lögbirtingablaðinu. Þá væri miklu auðveldara að dreifa lögum til þeirra aðila sem lögin varða sérstaklega, þá geta þeir á miklu auðveldari hátt fengið uppfærslur og skilaboð þegar lög sem þeir fylgjast með breytast. Það að þetta sé einföldun á þessu fyrirkomulagi, ég kaupi það ekki alveg. Ég á eftir að heyra betri skýringar á því.