148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

Samgöngustofa, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

109. mál
[15:13]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni, við þekkjum það í dag að lög eru birt í Stjórnartíðindum, en það er líka heimilað í mörgum lögum að reglugerðir, sérstaklega þær sem beinast að tilteknum hópi, séu birtar á heimasíðu viðkomandi stofnana eða ráðuneyta.

Varðandi það hvort hér sé einhver hætta á að við förum að birta lög, það snýst auðvitað ekki um það í þessu frumvarpi, við erum fyrst og fremst að fjalla um þessa viðauka og kóða sem í eðli sínu taka miklu meiri breytingum en grundvallarsamningurinn sem þeir miðast við. Þar af leiðandi rúmast innan samningsins það sem eru fyrst og fremst viðbrögð við tækninýjungum og einhverjum slíkum hlutum sem koma upp. Það myndi að okkar mati æra óstöðugan að vera stöðugt í því að þýða þær og gefa út að nýju. Þess vegna er þessi leið valin. En ég býst við að ábendingar hv. þingmanns fari til nefndarinnar og sérfræðingar á þessu sviði geti þá fjallað um málið ítarlega og fengið þau svör sem þurfa þykir.