148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Það er ánægjulegt þegar þingmannamál komast að í jafn ríkum mæli og raunin er. Það er alltaf jákvætt þegar þingflokkum gefst tækifæri til að heimsækja hina ýmsu aðila og hagsmunasamtök og við nýtum gjarnan þingflokksfundadaga í það. Okkur Framsóknarmönnum gafst færi á að þiggja heimboð til Öryrkjabandalagsins. Var það, verð ég að segja, afar ánægjuleg og lærdómsrík heimsókn á margan hátt. Fulltrúar bandalagsins fóru með afar vönduðum hætti yfir málefni sín og þá baráttu sem þau standa fyrir.

Ég get tekið undir með mörgum hv. þingmönnum sem hafa sagt í þessum ræðustól að tími sé kominn á að við gerum betur. Ég vitna þá m.a. til orða hv. þm. Óla Björns Kárasonar sem ræddi þau mál undir þessum lið fyrir viku. Ég get jafnframt vísað í framsögu hv. þm. Guðmundar Inga Kristinssonar í þingmannamáli í gær til bættra kjara þessa hóps.

Virðulegi forseti. Það er ekki aðeins víðtæk sátt um þetta mál meðal hv. þingmanna í salnum heldur birtist sá vilji hæstv. ríkisstjórnar í stjórnarsáttmála að nú verði ráðist í verulegar umbætur. Þar kemur m.a. fram að hæstv. ríkisstjórn muni efna til samráðs við forsvarsmenn örorkulífeyrisþega um breytingar á bótakerfinu sem er auðvitað afar nauðsynlegt. Það hefur hæstv. félagsmálaráðherra þegar boðað með það að markmiði að einfalda kerfið og tryggja framfærslu.

Það eru fleiri mál sem við þurfum að klára samhliða. Ég nefni frumvörpin sem eru í hv. velferðarnefnd, lögfestingu NPA, aukið framboð starfa hjá hinu opinbera fyrir fólk með skerta starfsgetu, innleiðingu sáttmálans og valkvæðan viðauka.