148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

almenn hegningarlög.

37. mál
[17:37]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Þetta mál er að mínu viti mikilvægt og það er, held ég að megi segja, í framhaldi af og í tengslum við mjög mikla umræðu sem fram fer í samfélaginu um kynferðislegt ofbeldi, stafrænt kynferðislegt ofbeldi í þessu tilviki. Það er mjög þarft og ég held að við séum að átta okkur á því smátt og smátt, ekki síst í ljósi þeirra atburða sem hafa orðið á síðustu mánuðum þar sem að kynferðislegt ofbeldi og áreitni hefur verið dregin fram í dagsljósið undir myllumerkinu #metoo, bæði hér á landi og víðar. Það kemur betur og betur í ljós að ofbeldi af þessu tagi virðist miklu útbreiddara en menn gerðu sér grein fyrir og ekki nóg með að það sé útbreiddara en við höfum gert okkur grein fyrir, í það minnsta sá sem hér stendur, heldur kemur betur og betur í ljós hversu alvarlegar afleiðingar ofbeldi af þessu tagi hefur. Það kemur betur og betur í ljós að það getur tekið fólk sem verður fyrir ofbeldi af þessu tagi, sem eru aðallega konur, mjög langan tíma að jafna sig, ef það gerir það nokkurn tímann. Ofbeldið hefur mikil sálræn áhrif og getur eyðilagt líf þeirra sem fyrir verða. Það eru líka til sögur af fólki sem hefur hreinlega tekið eigið líf í framhaldi af slíku ofbeldi. Fjöldamörg dæmi eru um það að stafrænt kynferðisofbeldi hafi leitt til slíkra hluta. Þess vegna held ég að við verðum í samræmi við það að reyna að styrkja lagaramma sem taka á ofbeldi af slíku tagi af festu og öryggi.

Stafrænt kynferðisofbeldi er frekar nýtt af nálinni. Varðandi þá miðla sem eru notaðir þá göngum við öll með snjallsíma, börn eru jafnvel farin að ganga með snjallsíma. Það er ótrúlega auðvelt að taka myndir og dreifa þeim og oft hugsa menn ekki út í það hvað þeir að gera eða vilja ekki gera sér grein fyrir því að um geti verið að ræða sendingar sem valda gríðarlegum skaða. Þess vegna held ég að sjálfsagt sé og eðlilegt að við ræðum þau mál. Þetta frumvarp er mjög í þeim anda sem er mér að skapi, enda er ég einn af flutningsmönnum. Ég held að í þessu máli, eins og svo mörgum fleirum, sé mjög mikilvægt að ekki sé aðeins verið að styrkja lagarammann heldur að við sendum um leið sterk skilaboð til samfélagsins um að brot af því tagi verði ekki liðin. Auðvitað þarf þetta allt að fara hönd í hönd við fræðslu og upplýsingar um alvarleika slíkra brota.

Málið er af sama meiði og annað mál sem er til meðferðar í þinginu sem hefur verið kallað samþykkisfrumvarp og varðar skilgreiningu á nauðgun þar sem frelsi einstaklingsins og kynfrelsi hans er í öndvegi. Það sama hlýtur að gilda hér, það á ekki að vera hægt að níðast á frelsi fólks með því að dreifa efni sem það vill ekki að sé dreift. Slíkt ofbeldi, að dreifa svona myndefni, er líka þess eðlis að það verður ekki svo auðveldlega afmáð, það gleymist ekki svo auðveldlega ef menn verða fyrir því og hægt er að endurtaka dreifingu slíks efnis æ ofan í æ ef þannig verkast vill. Þetta eru því mjög alvarleg mál og þarf að reyna allt sem hægt er til þess að hefta þau.

Ég held að áhyggjur hv. þm. Vilhjálms Árnasonar um að þarna göngum við kannski of langt eða skerðum önnur réttindi sem eru þegar til staðar og um það hvort fullkomlega hafi verið gengið úr skugga um að þetta frumvarp sé þannig úr garði gert að það bætti ástandið eða menn nái tilætluðum árangri séu í sjálfu sér góðra gjalda verðar. Við eigum alltaf að huga að því að við séum að færa okkur fram á veginn. Ég held að meðferð í nefnd og það að kalla til sérfræðinga, lögfræðinga, refsiréttarsérfræðinga, lögreglu, fólk sem hefur reynslu af að meðhöndla fólk sem hefur orðið fyrir ofbeldi af þessu tagi o.s.frv. sé liður í því að laga málið ef kunna að vera á því annmarkar eða ef hægt er að gera það enn betra.

Ég ítreka að lokum að svona mál eru þess eðlis að við getum ekki annað en tekið á þeim af mikilli festu. Það er greinilegt að áreitni og ofbeldi sem er kynbundið og af mörgu tagi er mein í samfélaginu sem við þurfum að taka á með öllum ráðum, m.a. með því að herða, skerpa og skýra löggjöf á þessu sviði þannig að öllum sé ljóst að þetta ofbeldi, auðvitað eins og annað ofbeldi en þetta er að mörgu leyti hættulegra ofbeldi en margt annað, verður einfaldlega ekki þolað lengur.