148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

64. mál
[18:30]
Horfa

Flm. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst erfitt að heyra það þegar minn góði vinur og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, sem ég ber mikla virðingu fyrir og er núna hv. þingmaður Suðvesturkjördæmis, kemur hingað og talar niður Samkeppniseftirlitið, eftirlit sem skiptir alla landsmenn, m.a. borgara og þegna Suðvesturkjördæmis, jafn miklu máli og þegna Skagafjarðar. Við eigum miklu frekar að segja: Eigum við ekki að ganga út frá því að jafn mikilvæg stofnun og Samkeppniseftirlitið gangi erinda aðeins eins, þ.e. almennings? Við hljótum að treysta því sem Samkeppniseftirlitið gerir og hefur gert margt mjög gott, mikilvægt og þýðingarmikið fyrir íslenskan almenning á mörgum sviðum. Það er alveg rétt að víða er stuðningur. Ég margsagði það. Þegar við í Viðreisn tölum um landbúnað tala aðrir eins og við viljum ekki styðja hann.

Ég held að ég endurtaki það núna í fjórða sinn: Við viljum styðja við íslenskan landbúnað en hafa þessa undanþágu, sem er undanþága frá 71. gr. samkeppnislaga, það er alveg rétt. Aðrir þættir eru undir almennum samkeppnislögum, en þetta er það sem skiptir mestu máli fyrir uppbyggingu lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem vilja feta áfram brautina innan mjólkuriðnaðarins. Það er alltaf einn aðili, Mjólkursamsalan/KS, í yfirburðastöðu á markaði, sama hvað menn segja. Eigum við þá að ræða innflutningshindranir? Tollamúra, sem hafa sem betur fer verið minnkaðir á liðnum árum? En það eru eftir sem áður innflutningshindranir til Íslands á grunni EES-samningsins þó að við höfum nú reyndar gerst brotleg á síðustu misserum gagnvart ákveðnum hluta.

Ég segi: Já, ég verð að treysta þeim eftirlitsaðilum og (Forseti hringir.) þeim stofnunum sem við höfum styrkt m.a. á þingi, komið upp lagaumgjörð um og fjármagnað, til að sinna sínu hlutverki. Ég treysti því og tel ekki þjóna neinum tilgangi að tala niður þær ákvarðanir sem Samkeppniseftirlitið hefur tekið í góðri trú.