148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

embættisfærslur dómsmálaráðherra.

[10:34]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Flokkur fólksins leggur áherslu á vandaða og faglega stjórnsýslu. Flokkur fólksins var ekki einn þeirra stjórnmálaflokka sem dómsmálaráðherra ræddi við um tillögu dómnefndar og varð þess áskynja, að eigin sögn, að þær tillögur yrðu aldrei samþykktar óbreyttar fyrir þinginu. Ég vil leiða hugann að því hvernig slíkum málum sé best komið til framtíðar og er að mínu viti nokkuð ljóst að núverandi skipan mála er ekki viðunandi af ýmsum ástæðum. Í fyrsta lagi eru augljósir vankantar á matsþáttakerfi dómnefndar sem fjölmargir hafa bent á og þarf ekki nema að benda á að ef einkunnagjöf riðlast um tvær, þrjár kommur í einum matsþætti breytist röð þeirra sem eru á listanum umtalsvert. Þetta er sérstaklega athugunarvert þar sem bent hefur verið á nokkra matsþætti sem virðast nokkuð handahófskenndir, svo sem samningu og ritun dóma og stjórn þinghalda þar sem allir umsækjendur fá einkunnina tíu, jafnvel þótt einhverjir hafi aldrei nálægt slíku komið.

Ég vil einnig benda á aðkomu Alþingis sem ég hef miklar efasemdir um. Augljóst er að sitjandi dómsmálaráðherra mun yfirleitt, eins og staðan í stjórnmálum á Íslandi hefur verið, hafa stuðning (Forseti hringir.) þingmeirihluta á bak við sig ef hann leggur til breytingar á skipan í embætti, annað leiddi óhjákvæmilega til stjórnarkreppu.