148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

pólitísk ábyrgð ráðherra.

[11:24]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég fylgdist raunar vel með fundinum í gær og sá þar enn einn viðsnúning í málflutningi hæstv. dómsmálaráðherra í þessu þvílíka máli, svo ég fari nú ekki út í ásakanir um að ég sé að ásaka umboðsmann Alþingis um leka, sem er alls ekki það sem ég var að segja. Ég er hreinlega að segja að það er rangt að halda því fram að einungis stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi fengið afrit af þessum gögnum, því að ráðherra orðaði mjög skýrt að hún hefði engum öðrum sent gögnin. Það er ekki sannleikanum samkvæmt.

En að hinum viðsnúningunum sem ég fylgdist mjög vel með á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í gær, sem snýr að ábyrgð þingsins í málinu. Sigríður Andersen, hæstv. dómsmálaráðherra, sagði á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í gærmorgun, sem ég horfði á, að skipunarvaldið, þingið, hefði ákvörðunarvaldið. Það skipti öllu máli, það hefði skipunarvaldið, sagði ráðherra. Alþingi ber klárlega ábyrgð á skipuninni, það er Alþingi sem staðfestir hana.

31. maí 2017 sagði hæstv. ráðherra:

„… það er ráðherra sem hefur veitingarvaldið og ber á því ábyrgð, bæði pólitíska og stjórnsýslulega ábyrgð.“

(Forseti hringir.) Hvernig stendur á þessum viðsnúningi hæstv. ráðherra? Hvenær hættir þetta hringleikahús?