148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

aðgengi að íslenskum netorðabókum.

[11:31]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég þykist vita að þetta mál sé ráðherra mikið áhugamál. Það er hins vegar ekki úr vegi að flytja nokkur brýningarorð um þau efni sem ég geri að sérstöku umtalsefni. Aðrar þjóðir hafa talið nauðsynlegt að slíkt efni sé aðgengilegt. Samtími okkar ber mikla ábyrgð varðandi framþróun, vöxt og viðgang íslenskrar tungu. Við þyrftum að eiga núna menn á borð við Rasmus Kristján Rask og Fjölnismenn. En auðvitað ber hverjum manni að gera skyldu sína í þessum (Forseti hringir.) efnum þannig að okkar fagra tunga megi áfram lifa og standa af sér þá hríð sem hún er í um þessar mundir.

(Forseti (SJS): Forseti veigrar sér mjög við að berja í bjölluna þegar svona fallega er talað um íslenska tungu en biður menn að huga að tímamörkum.)