148. löggjafarþing — 20. fundur,  1. feb. 2018.

áhrif Brexit á efnahag Íslands.

[11:34]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Í vikunni bárust fréttir eða leki úr skýrslu sem bresk stjórnvöld létu vinna þar sem greindar voru sviðsmyndir um möguleg áhrif af Brexit, þ.e. útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Það er í sjálfu sér áhugaverð lesning þar sem kom fram mjög skýrt miðað við þær þrjár meginsviðsmyndir eða líklegustu sviðsmyndir sem greindar voru að áhrifin yrðu umtalsverð, neikvæð í öllum tilvikum. Áhrifin væru neikvæð á allar meginatvinnugreinar Breta. Þarna voru bornar saman þær sviðsmyndir að enginn samningur næðist, að umfangsmikill fríverslunarsamningur næðist eða að Bretar gengju inn í Evrópska efnahagssvæðið, sem þykir kannski heldur ólíkleg sviðsmynd miðað við samningsforsendur Breta.

Í öllum tilvikum voru áhrifin umtalsverð og neikvæð. Hæstv. utanríkisráðherra hefur í umræðum um þessi mál rætt talsvert um þau tækifæri sem felist í Brexit fyrir okkur Íslendinga. Ég hef reyndar ekki orðið var við sambærilegan málflutning hjá starfsfélögum hans innan hinna EES-ríkjanna en látum það liggja á milli hluta. Það hlýtur að vera alveg ljóst að ef breskt efnahagslíf á næstu árum mun veikjast umtalsvert vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, þá getur það haft umtalsverð og neikvæð áhrif á íslensk fyrirtæki sem eiga í miklum viðskiptum við Breta enda er Bretlandsmarkaður einn okkar mikilvægasti útflutningsmarkaður.

Mig langar því að spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Hefur farið fram ítarleg greining innan utanríkisráðuneytisins á heildaráhrifum þess að Bretar gangi úr Evrópusambandinu, hverjar okkar helstu áskoranir verði og hvernig við getum brugðist við þeim?